04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

51. mál, stofnun landsbanka

Lárus H. Bjarnason:

Að vísu játa eg það, að nefndin hefir breytt frv. til batnaðar, en þó get eg ekki verið því fyllilega fylgjandi. Eg vil ekki breyta því fyrirkomulagi, sem nú er á stjórn landsbankans, nema eg sjái að hið nýja fyrirkomulag sé í verulegum atriðum breyting til hins betra. Eg lít svo á, að núverandi bankastjórn hafi ávalt staðið svo vel í sinni stöðu, að ekki sé þörf á að breyta af þeirri ástæðu. Eins og eg fékk tækifæri til að sýna hér í deildinni í gær, hefir bankanum ávalt farið fram, jafnvel einnig eftir að Íslandsbanki kom til sögunnar. Eg sé því ekki að frá almennu sjónarmiði sé nein þörf á því, að bæta einum bankastjóra við. Það getur verið að þörf sé á því frá sérstöku sjónarmiði meiri hlutans, til að geta komið einhverjum af sínum mönnum að bankanum. Það fyrirkomulag, sem frumvarpið fer fram á, yrði líka dýrara en núverandi fyrirkomulag. Nú kostar bankastjórnin landsjóð að eins 7000 kr. árlega, en eftir frumv. á hún að kosta 14000 kr. árlega. Eg efast mjög um að bankanum verði svo miklu betur stjórnað með þessu nýja fyrirkomulagi, að það svari þessum helmingskostnaðarauka. Eg gæti betur felt mig við að halda því gamla fyrirkomulagi, en færa upp laun bankastjórans og gæzlustjóranna. En þó eg álíti ekki að þessi breyting sé til neinna verulegra bóta, þá hefi eg þó ásett mér að gera enga rekistefnu út úr þessu, en stóð aðeins upp til að gera grein fyrir hvers vegna eg skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara.