06.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

51. mál, stofnun landsbanka

Gunnar Ólafsson:

Eg gat þess við 2. umr. að eg væri óánægður með ýmsar greinar frumvarpsins. Höfuðgallinn, sem mér þótti vera á, er nú að vísu lagaður. En annar galli er við frumv. enn þá, sá, að eftirlaun, sem ætluð eru núverandi bankastjóra, eru alt of há. Þess vegna hefi eg leyft mér að koma með breytingartillögu því viðvíkjandi á þingskjali 742. Það er ekki í samræmi við stefnu þings og þjóðar, að stofna til 4000 kr. eftirlauna, og það handa manni sem hefir ekki gengt embætti sinu lengur en 16 eða 17 ár. Það er auðsætt að þetta eru alt of há eftirlaun; þau eru hærri en svo að nokkur embættismaður landsins gæti fengið þau lögum samkvæmt eftir jafn stuttan tíma, jafnvel eftir gömlu eftirlaunalögunum. Eg viðurkenni dugnað þessa manns, en eg get þó ekki álitið það æskilegt eða rétt að ákvarða honum svo há eftirlaun, að þjóðin jafnvel teldi þau eftir. Vilji þjóðin veita þessum manni einhverja sérstaka sæmd, þá ætti það ekki að koma fram sem gífurlega há eftirlaun, því að þeirra þarf hann varla með, heldur á einhvern annan hátt.

Eg hefi lagt það til, að eftirlaun þessi væru færð niður í 3000 kr., og vona að háttv. deild samþykki þá breytingartillögu.