04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

52. mál, bankavaxtabréf Landsbankans

Steingrímur Jónsson:

Á þinginu 1907 var Landsbankanum veitt heimild til þess að gefa út nýjan flokk af bankavaxtabréfum. Til þess var góð ástæða, en engin til þessa, sem nú er farið fram á. Eg fæ ekki betur séð en bankinn sé vel trygður nú, og það er ekki búið að sanna mér, að hann þurfi meira veltufé en hann hefir. Mér þykir það auk þess undarleg og athugaverð aðferð, sem hér á að nota til þess að útvega bankanum peninga, að láta landsjóð fara að kaupa á heimsmarkaðinum bankavaxtabrjef Landsbankans — eða með öðrum orðum sín eigin skuldabréf; auk þess ber og þess að gæta að landsjóður þarf að taka dýrt lán til þess að koma þessu í kring. Öll þessi aðferð er svo óvanaleg, að eg álít að málið megi með engu móti ganga nefndarlaust gegn um deildina. Hér liggur fyrir deildinni frumv. um að landsjóður gerist hluthafi í Íslandsbanka fyrir 2 milj. króna. Það er mjög þýðingarmikið mál, og hefði eg helzt óskað, að háttv. 5. kgk. þm. hefði lagt til að þessi tvö mál yrðu samferða.