06.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

52. mál, bankavaxtabréf Landsbankans

Eiríkur Briem:

Af því sem háttv. framsögum. tók fram, skal eg geta þess að bankinn á meir eftir af 2. flokks bankavaxtabréfum, en ætla mátti af orðum hans; það er jafnvel enn eftir að gefa út nokkuð af þeim. Þess gat eg líka þegar eg lagði frumvarpið um þriðja flokk bankavaxtabréfa fyrir deildina, en gat þess jafnframt, að það væri ekki svo mikið að það myndi duga til næsta þings.

Viðvíkjandi því sem háttv. 4. kgk. sagði, þá er það rétt, að ekki er útlit fyrir að önnur eins aðsókn verði að bankanum um lán út á fasteignir og verið hefir. En ekki eru jarðir þó svo mjög veðsettar enn að ekki séu nokkrar eftir. Og þar við er líka þess að geta, að út á margar jarðir sem lán hefir verið veitt út á áður, má fá viðbótarlán. Það kemur til af því að töluvert er búið að borga af eldri lánum, og svo hafa jarðirnar víða verið bættar og þá hækkað í verði síðan lánið var tekið. Þess utan eru heimildir til þess að veita sýslum og sveitarfélögum lán, t. d. í sambandi við fræðslulögin, þar sem skylda er lögð á um að byggja skólahús. En að bankinn þurfi á svo miklu fé að halda sem nefnt er í frv., er auðvitað ekki hægt að segja um, en eins og eg sagði, er þó nokkuð af bankavaxtabréfum enn óselt.