06.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

52. mál, bankavaxtabréf Landsbankans

Framsögum. (Jósef Björnss.):

Eg vildi að eins svara háttv. 4. kgk. þm. nokkrum orðum, því að mér virtist hann fara fram hjá því í athugasemdum sínum, sem er aðalatriði í þessu, og það er að hjálpa landsmönnum til þess að fá peninga.

Háttv. þm. dró í efa að svo mikið væri sótt eftir lánum, en það er þó á allra manna vitorði, að í seinni tíð hefir verið svo mikil ekla á peningum í bönkum hér, að lán hafa alls ekki fengist þó að jarðir hafi verið boðnar í veð. Vegna ýmsra fyrirtækja, sem verið er að koma á fót, t. d. skólabygginga o. s. frv, þarfnast einstakir menn og mörg hreppsfélög fjár, og þeim eru veitt hlunnindi með þessari sölu, því að bankinn getur miklu betur hjálpað ef hann fengi fé milli handa með þessari sölu, sem hann svo gæti lánað eftir vild á eftir. Þannig lítur nefndin á þetta mál, og eg skal láta í ljós fyrir hennar hönd að hún sér ekkert athugavert við frv., og ræður háttv. deild eindregið til þess að samþykkja það.