06.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

52. mál, bankavaxtabréf Landsbankans

Jens Pálsson:

Þegar verið er að fjalla um þetta mál, þá finst mér beri að taka tillit til peningavandræðanna í landinu — líta á hvað mikið er til af peningum. Og það er sárlítið. Íslandsbanki hefir aðallega skift sér nær eingöngu af verzlun landsins — birgt hana með peninga, og haldist það, verður landsbankinn að taka alla aðra peningaþörf á sínar herðar. Og þó að hann nú fengi 2 milj., þá yrði víst nóg að gera við þær.

Það er hart, að menn skuli ekki geta fengið lán út á veðbærar eignir. Hér er heldur ekki verið að tala um að kaupa fyrir alla þessa upphæð í einu, heldur að eins um heimild til að kaupa svo og svo mikið, t. d. að byrja með að kaupa fyrir eins og ¼ milj. í einu; í því verður þörf manna að vera mælikvarði.

Það heftir mjög framkvæmdarhug manna, þegar menn vita það, að þeim er ómögulegt að nota lánbærar eignir sínar til þess að framkvæma þau fyrirtæki, sem þeir hafa sett í vinnu sína og fé. Það má líka búast við að sú peningakreppa, sem við höfum lifað undir að undanförnu, hafi kent bæði bönkunum og eins almenningi að fara varlega. Það ætti því ekki að vera nein hætta að gera þetta frumv. að lögum. Því að peningalausir getum vér ekki þrifist, frekar en vér getum þrifist matarlausir.