25.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

53. mál, sóknargjöld

Framsögum. (Sigurður Stefánsson):

Eg skal taka það fram, að í fyrirsögn nefndarálitsins stendur: »sóknartekjur«, en á að vera: »sóknargjöld«. Það hefir slæðst inn af misgáningi.

Flutningsmaður tók það fram við 1. umr., að frumv. þetta væri undirbúið af milliþinganefndinni í skattamálum, og væri að mestu leyti samhljóða frv. því, er nefndin bjó til. Ennfremur færði hann ástæður fyrir því, að rétt væri að taka þetta mál til meðferðar, þó álit skattamálanefndarinnar sé ekki til meðferðar í heild sinni. Nefndin, eða meiri hluti hennar, hefir fallist á þessa skoðun flutningsm., og álítur ekki ástæðu til að bíða með málið.

Eg finn ekki ástæðu til að tala alment um mál þetta. Get vísað til nefndarálitsins, og hefi engu við það að bæta. Eg skal snúa mér að breyt.till. nefndarinnar. Sumar þeirra fara fram á efnisbreytingar, en aðrar að eins orðabreytingar til skýringar.

1. breyttill. er við 2. gr. Nefndin leggur til að orðin »er telst til þjóðkirkjunnar« falli burtu. Í samræmi við hana er 2. breyt.till., líka við 2. gr., að í stað orðanna: »Til þjóðkirkjunnar teljast allir þeir, sem ekki«, komi: »Undanþegnir þessu gjaldi eru allir þeir, sem«. Nefndin áleit að það ætti ekki við að skilgreina hér hverjir væru í þjóðkirkjunni, heldur ætti að ákveða hverjir væru gjaldskyldir; en það er vitanlegt, að gjaldskyldan hvílir jafnt á öllum, sem ekki eru í einhverju kirkjufélagi utan þjóðkirkjunnar. Seinna kemur sama breyting, þar sem ræðir um gjaldskyldu sóknarmanna til kirkju.

Þá hefir nefndin komið með breyttill. við 3. gr. í síðustu málsgrein þessarar greinar er vísað til prestalaunalaganna um reikningsskil sóknarnefnda fyrir prestsgjaldinu. Nefndinni þótti gleggra að hafa í þessum lögum reglur um það, hvernig haga skuli við innheimtuna, og ræður því til að síðasta málsgrein 3. gr. sé feld burtu, en aftur verði tekin upp í frumvarpið, með litlum orðabreytingum, 17. gr. prestalaunalaganna, er verði 2. gr. Það ríður á því, að í lögum, sem almenningur á eftir að fara,. séu öll ákvæðin skýr og á einum stað.

Nefndinni þykir réttara, að aldurstakmarkið sé ekki tekið fram oftar en einu sinni, og ræður því til, að í 5. gr. komi: »sem gjaldskyldir eru«, í stað orðanna: »sem eru fullra 15 ára að aldri«, og síðar: »gjaldskyldur er til kirkju«, fyrir orðin: »15 ára að aldri«.

6. gr. virtist nefndinni ástæða til að breyta. Í henni er gert ráð fyrir að söfnuðir geti hækkað og lækkað kirkjugjöld, þar sem þeir hafi á hendi umsjón og fjárhald kirknanna. Auðvitað kemur þá helzt til að hækka kirkjugjöldin er kirkja er bygð. Sú hækkun gæti komið allþungt niður á efnaminni sóknarmönnum. En á hinn bóginn mun kostnaðurinn oftast vera runninn undan rifjum efnameiri manna. Þess vegna fanst nefndinni ástæða til að gera hér þá breytingu, að sóknarnefndir mættu jafna gjaldaukanum að helmingi niður eftir efnum og ástæðum. Þá kæmi hærra niður á efnameiri menn, en ef persónulegu gjaldi væri fylgt út í æsar. Að vísu er þetta brot á meginreglu frumvarpsins, en nefndinni virtist það réttlætast af því, að með þessu móti gefst sóknarnefndum færi á að létta á fátækari mönnum, en efnamenn bera aftur meira.

7. gr. finst nefndinni ekki svo ljós sem skyldi. Verði hún að lögum eins og hún er orðuð í frumv., gæti hún haft þau áhrif, að kirkjur í fjölbygðum sjávarsveitum fengju meiri tekjur eftir en áður, vegna fjölmennisins. Nefndin álítur ekki rétt, að slíkar kirkjur græði á þessari tilhögun, en hins vegar vill hún auðvitað heldur ekki, að þær skaðist á henni. Sú aðferð, sem gert er ráð fyrir í 7. gr., kemur auðvitað einungis til greina þar sem hin nýja tilhögun minkar eða eykur tekjur kirkjunnar. Og nefndin vill að það komi ljóslega fram með skýrum ákvæðum, að forráðamönnum kirkna, sem ekki eru undir umsjón safnaðanna, geti ekki móti vilja safnaðanna aukist tekjur við breytingu kirkjugjaldsins samkvæmt 6. gr., og hins vegar, að tekjur kirkjunnar megi ekki rýrast við hana. Þess vegna hefir nefndin komið með þessa breyt.till. Minki tekjur kirkjunnar við breytinguna á kirkjugjöldum, getur forráðamaður kirkjunnar beiðst þess, að viðhöfð sé sú aðferð, sem ákveðin er í 7. gr., og vaxi tekjurnar, getur söfnuðurinn gert það. Með þessu er annars vegar borgið rétti kirkjunnar, að ekki minki tekjur hennar, og hins vegar rétti safnaðarins, að gjöldin þyngist ekki að óþörfu.

Við 8. gr. hefir nefndin komið með breyt.till. í sambandi við ákvæðin í 6. gr. Henni þótti réttara að sóknarnefndir væru ekki bundnar við vissan tíma, að því er aukaniðurjöfnunina snertir. Það gæti valdið óþægindum, að hafa hana á sama tíma sem hina reglulegu niðurjöfnun hins lögskipaða kirkjugjalds.

Þá er breyt.till. við 9. gr. Þar er það ákvæði, að heimilisráðandi skuli greiða gjöldin fyrir þá, sem lögheimili eiga hjá honum. En það má búast við því, að húsráðandi geti verið öreigi, einkum í kaupstöðum, og fanst því nefndinni ástæða til að setja í lögin ákvæði um það, að sóknarnefnd geti gengið að gjaldanda sjálfum, ef svo stendur á. Það gæti verið að hann væri ekki öreigi þó húsráðandi væri það.

Í 10. gr. er það ákvæði, að aldurstakmark gjaldskyldra manna skuli miðað við eindaga gjaldanna. Því vill nefndin breyta svo, að aldurstakmarkið sé miðað við næsta nýár á undan gjalddaga. Henni dylst ekki, að með því móti verður auðveldara að ná í skýrslur um aldur manna, og fá meiri vissu um hann. Fyrir gjaldskylduna hefir þetta sárlitla þýðingu.

Þá er breyt.till. við 11. gr. Nefndin vill að launauppbót presta, er hafa laun eftir eldri ákvæðum en lögum frá 16. nóv. 1907, ákveðist eftir 5 ára meðaltali sóknarteknanna í stað 10, með því að svo langt tímabil gæti leitt til þess, að prestar yrðu fyrir tekjumissi.

Nefndinni er málið ekkert kappsmál, en álítur æskilegt, að það verði rætt sem bezt, því þó að það gangi ekki fram nú, er mikið unnið með því að undirbúa það fyrir næsta þing, sem vafalaust tekur það upp, ef þetta þing lýkur ekki við það. Það er full þörf á því, að gera sóknarnefndum auðveldari og umsvifaminni innheimtu sóknargjaldanna en nú er. Og skal eg svo ekki fara frekari orðum um málið.