25.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

53. mál, sóknargjöld

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Háttv. 4. kgk. þm. hefir mikið til tekið af mér ómakið að svara háttv. þm. K.-G. svo að eg get verið stuttorður.

Hann talaði um, að þjóðin hefði ekki haft nægan tíma til að átta sig á þessu máli. — Þetta sýnist mér varla frambærileg ástæða. Þó að fundarályktanir hafi ekki komið fram í þessu máli, þá hafa heyrst raddir víðs vegar að úr landinu, sem sýna það, að menn eru alment mjög óánægðir með þessi margbrotnu gjöld, sem nú eru.

Eg skal játa það, að eg hefi stutt þá tillögu, að sóknargjöldin féllu niður og að öll þau gjöld væru borguð úr landsjóði. En mér hefir aldrei dottið í hug annað en að landsjóður fengi þá þennan halla bættan.

Háttv. þm. talaði og um, að þetta væri nefskattur, og kæmi því óréttlátlega niður. — Þetta væri góð og gild ástæða á móti frumvarpinu, ef verið væri að afnema réttlátan, beinan skatt, og setja nefskatt í staðinn. En því er ekki til að dreifa, því að hin núverandi kirkju- og prestagjöld eru mörg ranglátur nefskattur; þau eru hvorki fugl né fiskur, og koma mjög óréttlátt niður á gjaldendur. Hér er því ekki verið að ræða um að afnema vinsælan og réttlátan skatt, heldur úreltan og ranglátan. Og þó að sá skattur, sem ætlast er til að komi í staðinn, sé nefskattur, þá má þó með sanni segja, að hann verður réttlátari en gamli skatturinn. Eftir frumv. eru og gjöldin meðfram niðurjöfnunargjöld.

Það hefir verið talað um að hreyfing væri að vakna fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. En eg hygg að þessi breyting á sóknargjöldum leggi engan stein í götu fyrir þá hreyfing. Því meir sem eg hugsa um það mál, því meir hallast eg að því, að sú breyting væri ef til vill heppileg, og því vil eg á engan hátt gera þeirri hreyfing erfiðara fyrir.

Þessi skilnaðarhreyfing er komin sumpart frá sértrúarmönnum, og er auðvitað mjög eðlileg frá þeirra sjónarmiði. Þeir geta verið eins góðir og guðhræddir menn fyrir því, og það er engin von, að þeir vilji borga gjöld til kirkju, sem ekki er í samræmi við þeirra trúarskoðanir, enda ekki rétt að íþyngja þeim með slíkum gjöldum. — Að því leyti, sem þessi hreyfing er komin frá óvinum kirkjunnar, þá vona eg að það verði þó ekki aðallega þeir menn, sem bera skilnaðarhreyfinguna fram til sigurs. Enda þekki eg marga einlæga menn kirkjunnar, sem eru skilnaði hlyntir.

Það er hverju orði sannara, sem háttv. þm. G.-K. sagði, að nefndarstörf almennings eru orðin mjög erfið og margbrotin. En þetta frumvarp miðar einmitt til þess, að létta störf sóknarnefnda. Það er miklum mun léttara að heimta inn þetta ákveðna gjald eftir frumv., heldur en þau margbrotnu gjöld, sem nú eiga sér stað. Og að því leyti sem gömlu gjöldin eru niðurjöfnunargjöld, eru þau erfið innheimtu og óvinsæl eins og gerist um öll niðurjöfnunargjöld. Eg held því að það sé ómögulegt að taka gömlu lögin fram yfir frumvarpið, hvað snertir störf nefndarmannanna.

Það er satt, að 15 ára unglingar hafa ekki atkvæðisrétt eftir frumv. En það misrétti stendur til bóta; þeir fá réttinn þegar þeir vaxa upp. — Hitt misréttið, sem er innifalið í því, að sumar sóknir gjaldi meira en þær bera úr býtum, er ekkert sérstakt fyrir þetta frumv. Það er svo eftir prestalaunalögunum. Setjum svo að nú kæmi nýr prestur í Garðaprestakall, þá gengi mikið af gjöldum sóknarmanna í prestalaunasjóðinn og þaðan til annara prestakalla. Þetta atriði getur því ekki verið ástæða á móti frumvarpinu.

Annars tel eg það ekki svo nauðsynlegt, að frumvarpið verði samþykt á þessu þingi, að eg vilji gera það að kappsmáli. En það er gott, að málið fái sem beztan undirbúning. — Hitt get eg ekki fallist á, að þetta mál þurfi að vera í óslítanlegu sambandi við önnur skattamál landsins.