25.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

53. mál, sóknargjöld

Jósef Björnsson:

Eg vildi aðeins minnast nokkuð á örfá atriði í þessu máli.

Háttv. þm. G.-K. sagði að það vantaði undirbúning frá þjóðinni, málið væri óhugsað og órætt. Þetta kann að vera satt að vissu leyti, en að því er snertir kirkjugjöldin, er þetta léttvæg ástæða, því að það mál er nú orðið 20 ára gamalt. Það var rætt á þingi 1889 og eftirfarandi þingum, og þá var það tekið fram, að kirkjugjöldin þyrfti að gera óbrotnari. Menn voru því þegar fyrir 20 árum, farnir að finna til þess, að það væri þörf umbóta í þessa átt, og þó eru gjöldin orðin ennþá margbrotnari nú.

Háttv. þm. hafði og það á móti frumv. að það fyrirskipaði persónuleg gjöld, en þau væru ávalt ójafnaðargjöld. Mér þykir undarlegt að háttv. þm. G.-K. skuli kasta þessu fram. Eg efast um að þetta sé skoðun hans, því að á þingi 1893 taldi hann það aðalkost frumvarpsins, sem þá lá fyrir, að það gerði ráð fyrir persónulegum gjöldum. Orð hans voru þá þessi: »Það sem gjörir frumv. bezt í mínum augum er það, að það er sannfæring mín, að það sé rétt »princip«, sem hér er fylgt, það að gjaldið sé persónulegt«. (Alþ.t. 1893 B., dálkur 1756).

Þeirri ástæðu á móti frumv., að þetta persónugjald, 1,50 kr. á mann, komi hart niður á fátæklingum, hefir háttv. framsögumaður svarað að nokkru leyti. Eins og hann benti á, er sóknargjöldunum nú svo fyrirkomið, að þau eru persónugjöld að miklu leyti og koma mjög hart niður á sumum. Vér skulum taka til dæmis fátækan kotbónda; hann hefir konu og börn fyrir að sjá, en hefir ekki fleiri skepnur en svo, að hann er í öreiga tíund. Þessi maður verður nú að borga hin ýmsu kirkjugjöld, en auk þess lambsfóður og dagsverk til prests. Gjöld hans mundu nema 8—10 kr., en eftir frumvarpinu þyrfti hann aðeins borga persónugjöld fyrir sig og konu sína, samtals 4½ krónu til prests og kirkju. Það sýnir sig því að gjöldin koma miklu harðara niður á honum eins og nú er, heldur en eftir frumvarpinu.

Það þykir hart, að frumv. gjörir ráð fyrir að 15—25 ára gamlir menn skuli eiga að greiða sóknargjöld, en hafa þó ekki atkvæðisrétt í safnaðarmálum. En eg vil benda á, að þessir menn eru alls ekki allir undanþegnir sóknargjöldum eins og nú stendur. Þeir verða að borga til prests og kirkju, ef þeir tíunda ½ hundr., og hafa þó ekki atkvæðisrétt. Eg skal ekki segja neitt um það, hversu alment það er, að menn á þessum aldri tíundi ½ hundr., en í mínu kjördæmi er það alls ekki óalgengt.

Að því er snertir fyrirhöfn sóknarnefnda, þá dylst mér ekki að frumv. væri til mikilla bóta. Störf sóknarnefnda eru nú mjög erfið og óvinsæl, af því að oft og tíðum er vafasamt um gjaldskyldu manna, að því er sérstök gjöld snertir. Lambsfóðursgjaldið hefir sérstaklega þann annmarka, að þegar vel heyjast, vilja margir fremur fóðra lamb, en borga peningagjald, en heyist illa, vill enginn taka lamb; það er jafnvel farið að brydda á því, síðan lögin frá 1907 komu í gildi, að sóknarnefndir verða að láta lömb frá sjálfum sér í fóðrin og borga aftur í peningum. — Svona má halda áfram að nefna galla eftir galla á gamla fyrirkomulaginu, en frumvarpið bætir mjög úr þeim, og er í stuttu máli sagt miklu betra og réttlátara.