25.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

53. mál, sóknargjöld

Lárus H. Bjarnason:

Eg stend upp aðallega til þess að svara aðfinslum við kirkjumálanefndina. Háttv. 4. kgk. þm. fann að því, að hún hefði ekki tekið sóknargjöldin til athugunar. Það kom blátt áfram til af því, að nefndinni var aldrei falið það starf, enda ekki svo með þá nefnd farið af þinginu 1905, að hún gæti unnið aukaverk. Annars tek eg undir það með háttv. þm. G.-K., að frv. er helzt til snemmbært. Eg sé ekki betur en að það megi bíða eftir öðrum umbótum á skattalöggjöf landsins. Þingið 1907 bætti svo hagi presta, að þeir mega vel við una fyrst um sinn.

Þegar um skatta er að ræða, er það aukaatriði, á hvern hátt sé hægast að innheimta skattinn. Hitt er aðal atriðið, að skatturinn sé réttlátur í sjálfu sér. Verði frumv. þetta að lögum, koma sóknargjöldin hart niður á fátækara fólkinu t. d. lausafólki og vinnufólki, sem lítið gjald borga nú. Þetta er því athugaverðara, sem þessir menn hafa enga fulltrúa á þingi þjóðarinnar. Frumv. kemur og hart niður á fátækum fjölskyldumönnum, því að þeir verða að borga gjaldið fyrir alla fjölskylduna, sumir ef til vill fyrir foreldra og börn; þetta getur orðið töluvert gjald, gjald sem borga verður þar að auki í peningum, í stað þess að nú geta menn greitt gjöldin á þann hátt, sem þeir finna minna til.

Eg geri lítið úr þessari almennu óánægju yfir gjöldunum, sem háttv. þm. Ísf. talaði um. Það kann vel að vera, að mönnum sé illa við sum gjöldin, t. d. lambsfóðrin. En beinni óánægju, sízt almennri, hefir þó ekki borið á.

Mér þykir varhugavert að samþykkja frumvarpið á þessu þingi, og legg áherzlu á, að það kæmi hart niður á mönnum, sem enga fulltrúa eiga hér á meðal vor. Og benda mætti loks háttv. þjóðræðismönnum á, að það er ekki æði þjóðræðislegt, að demba nýjum skattlögum á þjóðina, að henni fornspurðri.