03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

55. mál, dánarskýrslur

Kristinn Daníelsson:

Háttv. framsögum. tók það fram, að þetta mál lægi nú fyrir alþingi í 5. sinn; eg hygg jafnvel, að það sé í 6. sinn, því að sams konar frumv. hefir legið fyrir þinginu áður, en það var í fyrstu nefnt frumv. um líkskoðun. Þetta bendir á hverjir agnúar hafa þótt á frumv. vera, og mér hafa enn virzt svo miklir agnúar á málinu, að eg hélt í fyrstu, að eg gæti alls ekki verið með því. Eg skal benda á það, sem mér þykir vera aðalgallar á frumv. Það eru í fyrsta lagi allir þeir snúningar fyrir prestinn og aðra, sem fylgdu mörgum dauðsföllum, og svo mætti búast við að jarðarför gæti ekki farið fram fyr en seint og síðar meir, vegna þeirra snúninga, sem af líkskoðunarskyldunni hlytust. Annar agnúi verður það, sem háttv, þm V.-Sk. tók fram, að svo margar sóknir á landinu eru læknislausar, og þá mundi líkskoðunin ekki koma að neinu verulegu gagni. Ennfremur fylgir þessu töluverður kostnaður, og er tæplega hægt að gera ráð fyrir að hann verði undir 3000 kr. Þetta er of mikill kostnaður, þegar þess er gætt, að lögin muni ekki koma að meira gagni en svo, að líkskoðun gæti farið fram á hér um bil 20% af landsmönnum.

Eg veit t. d. um Reykjanes, þar sem eg er einna kunnugastur, þar ætti líkskoðun ekki að fara fram annarstaðar en í Keflavik, sem er ein sókn fyrir sig.

Mér dylst þó ekki að það er mikið gott í þessu frumv., og eg skyldi ekki sjá eftir þessum 3000 kr. sem færu í kostnað, né heldur teljast undan þeirri aukavinnu, sem lendir á embættisbræðrum mínum, ef þá væri hægt að gera lögin svo úr garði, að þau kæmu að verulegum notum. Það mætti gera prestum að skyldu að færa dálk í bókum sínum um dauðamein manna eftir beztu vitneskju, sem þeir gætu fengið, en það ætti ekki einungis að vera í þeim sóknum, sem eru læknislausar, heldur líka þar sem læknarnir búa. Síðan sendu prestarnir læknunum skýrslur sínar, en þeir leiðréttu eftir því sem þeir vissu betur, og sendu síðan aðalskýrslu.

Eg vona að málið komist til 3. umr., og þá hafði eg hugsað mér að bera fram br.till., sem mér þykja nauðsynlegar. Annars hlýt eg að verða á móti frumvarpinu.