15.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Steingrímur Jónsson:

Eg á hér breyttill. á þgskj. 470. Það stendur svo á þessari breyt.till., að tillagið til Austfjarðabátsins var samþykt við 2. umræðu með því skilyrði, að báturinn færi 3 ferðir til Víkur og Vestmanneyja. Eftir upplýsingum, sem eg hefi fengið hjá þingmönnum í Nd., má fullyrða að þetta ákvæði verður til þess að ómögulegt verði að koma þessum bátsferðum á fót í sumar, því útgerðarmenn bátsins telja ekki tiltækilegt að láta bátinn ganga svo margar ferðir til Vestmannaeyja. Mín breyt.till. er því aðeins til miðlunar, og vona eg að háttv. deild sjái að hún sé á rökum bygð.

Úr því að eg stóð upp, ætla eg lítilfjörlega að minnast á breyt.till. á þgskj. 472. Eg hefi að vísu ekki haft tækifæri til að kynna mér nákvæmlega það mál, sem hér liggur fyrir. En mér þykir það vera bygt mjög í lausu lofti, og mér dylst alls ekki að málefnið sé nokkuð hættulegt. Málið var alls ekki tekið til umræðu í nefndinni, og menn hafa ekki átt kost á að setja sig inn í það. Eg skal benda á 2 atriði, sem mér virðast viðsjárverð. Í fyrsta lagi á að veita styrkinn fyrirfram, og er alls enginn trygging sett fyrir endurborgun hans ef illa fer. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að landstjórnin skuldbindi sig til þess, að halda vegum í svo góðu standi, að hægt sé að aka mótorvögnum á þeim. Þetta er mjög óákveðið. Það veit enginn hve mikið þarf að gera að vegunum, né hve mikils þessi maður krefst í þá átt. Eg þykist vita að betri vegi þurfi en vér höfum nú, og skal eg benda á það að t. d. Eyjafjarðarbrautin hefir ekki reynst hæf til mótorkeyrslu.