15.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Ari Jónsson:

Eg skal ekki vera langorður; eg vil aðeins athuga ofurlítið tvö atriði í ræðu háttv. 4. kgk. Annað atriðið er það, að honum fanst varhugavert að veita þessar 4000 kr. tryggingarlaust. Eg skal geta þess, að Garðar hefir gefið mér heimild til að skýra frá því, að hann sé fús til að setja trygging fyrir endurborgun fjárins, ef stjórnarráðið álítur nauðsynlegt að heimta slíka tryggingu. En annars er þetta, eins og mörg önnur skilyrði, er nauðsynlegt kann að þykja að setja fyrir fjárveiting þessari, atriði, sem á að vera í samningi milli Garðars Gíslasonar og stjórnarráðsins, en ekki í fjáraukalögum, og ætti stjórninni ekki að vera ofvaxið að taka slíkt tryggilega fram í samningnum. Hitt atriðið er það, að háttv. þm. fanst varhugavert að ganga að því skilyrði, sem Garðar setur, að vegunum sé haldið við; hann óttaðist að það gæti orðið nokkuð kostnaðarsamt. En hér er alls ekki átt við neitt dýrt viðhald. Það er ekki átt við annað en að vegunum sjá haldið við eins og góðir vegir gerast hér nú, að þeir séu stórgallalausir og nokkurnveginn jafnir, þannig að þeir séu færir fyrir aðra vagna, er tíðkast hér nú. En annars álít eg, eins og eg sagði áðan, stjórninni treystandi til að gera samninginn svo úr garði, bæði að því er þetta atriði og önnur snertir, að landið geti ekki skaðast á fjárveitingu þessari. Mér finst tilboðið svo glæsilegt, að eg álít sjálfsagt að taka því.