18.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

56. mál, byggingarsjóður

Ráðherra (H. H.):

Það er sannarlega ekki ódýrt, ef engin alin í túninu er seld lægra en á 2 kr. og 50 aura. Þó að túnið væri alt selt þessu verði, mundi þessi litli blettur kosta um eða yfir 300 þús. kr. Og þætti það allgott verð í heild, fyrir ekki stærra svæði. En nú má búast við að matsverðið mundi verða hærra, eins og eg hefi tekið fram, og þá líklega miklum mun hærra á sumum svæðum við sjóinn.

Eg er ekki sérstaklega á móti því, að skipuð sé nefnd í málið, en eg sé enga ástæðu til að halda svo fast í þessa lóð, að hún verði landsjóði arðlaus eign áfram, eins og hún má heita hingað til. Það er dýrt að fresta sölunni mjög lengi. Menn verða að muna, að það er ekki alllítið árlegt rentutap, sem hér er um að ræða, og þyrfti mikla verðhækkun til þess að bæta það upp.

Hugsunin í lögunum um byggingarsjóðinn er góð og rétt, nefl. að breyta þessum gamla embættisbústað í opinberar stórbyggingar, og það má ekki gera þá hugsun að hégóma, með því að rígbinda sig við ímyndun um »dýrmæti«, sem menn ekki virðast hafa fengið fyr en eftir að byggingarsjóðsfrumvarpið kom fram.