15.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Gunnar Ólafsson:

Það var viðvíkjandi breyt.till. á þskj. 470, sem eg vildi segja fáein orð. Við 2. umræðu var fjárveitingin til bátaferða frá Langanesi til Hornafjarðar samþykt með því skilyrði, að báturinn færi minst 3 ferðir til Víkur og Vestmanneyja, eftir samkomulagi við sýslunefnd Vestur-Skaftafellssýslu. Breyt.till. á þskj. 470 fer fram á að báturinn fari aðeins 2 ferðir á þessa staði, og að ákvæðinu um, að ferðirnar skuli ákveðnar í samráði við sýslunefnd, sé slept. Þetta síðara, að útgerðarmenn ráði á hvaða dögum báturinn komi til Víkur, get eg gengið inn á, en hitt, að ferðirnar þangað séu aðeins tvær, get eg ómögulega fallist á. Eg get ekki séð að nokkur sanngirni mæli með því, að klípa af þessum þrem ferðum, þar sem hér er um svæði að ræða, sem stendur verr að vígi, að því er samgöngur snertir, en nokkur annar hluti landsins, en láta bátinn ganga vikulega eða hálfsmánaðarlega á aðrar hafnir sem hafa nálega daglegar ferðir Fyrst bátnum er ætlað að fara til Hornafjarðar, finst mér sjálfsagt að dálítið sé gert til að greiða fyrir þeim sem vestar búa, og eru illa staddir í þessu efni. Það er ekki rétt, að þessi hluti landsins sé altaf látinn vera útundan, að því er samgöngur snertir. Háttv. 4. kgk. var þegar í nefndinni talsmaður þess, að báturinn færi helzt aldrei vestur fyrir Hornafjörð. Það var svo að heyra, sem hann hefði samið við sýslunefndina í Þingeyjarsýslu um það, og ferðirnar væru fastákveðnar fyrirfram, svo að engu mætti breyta. Eg sé ekki að ástæða sé til að taka slíkt til greina, þó hann hafi verið svo fljótfær, að gera slíkan samning fyrirfram. Hér er um aukafjárveiting að ræða, sem hann gat ekkert vitað um hvort fengist, áður en hann fór úr sýslunni.

Eg gæti gengið að tillögunni ef hún færi fram á 3 ferðir, en annars ekki. Eg sé ekki að það sé ósanngjörn krafa, þar sem hinum stöðunum fyrir austan eru ætlaðar 7 ferðir.

Eg skal ekki fara fleiri orðum um tillöguna, en vona að háttv. deild líti með sanngirni á málið.

Annars vil eg beina þeirri spurningu til háttv. flutningsmanns, hvort hann vill ekki taka breyt.till. aftur. Hún ber ekki með sér, að neitt ákvæði, sem áður er samþykt, eigi að falla burtu, eða að þetta eigi að koma í hins stað. Það lítur helst út fyrir að hvorttveggja ákvæðið eigi að standa í lögunum.