05.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

56. mál, byggingarsjóður

Framsögumaður (Jens Pálsson):

Sem framsögumaður vil eg til viðbótar við athugasemdirnar við frumv. stjórnarinnar og nefndarálitið taka fram nokkur atriði til skýringar.

Í lögum frá 20. október 1905, var ákveðið að stofna skyldi af andvirði embættisjarðanna Arnarhóls — að meðtöldu verði hinnar svonefndu Klapparlóðar— og Örfiriseyjar sjóð er skyldi varið til opinberra bygginga. — Þeim, sem annars álíta þessa ráðstöfun hyggilega og hagfelda landsjóði, hlýtur að vera það hugstætt mál, að lögin nái tilgangi sínum. Í lögum þessum var stjórninni gefin heimild til að selja hverja fer-alin á 5 kr. lægst. Eg skal geta þess, að í frumv. því, er stjórnin árið 1905 lagði fyrir þingið, var lágmark söluverðsins sett 3 kr., en þingið færði það upp í 5 kr. Klapparlóðin var þegar seld er lögin gengu í gildi. Örfirisey var seld rétt á eftir, en af Arnarhólslóðinni hefir ekki selst ein fer-alin

Auðvitað er ekki unt að segja með vissu, hvort lágmarkið hafi þótt of hátt, og hafi þannig verið sölu til fyrirstöðu. En það er mögulegt, að m. k. hugsanlegt, að það hafi fælt kaupendur frá, og hafi þannig valdið því, að tilgangi laganna um byggingarsjóð hefir ekki verið náð. Stjórnin vill bæta úr þessu með frumv. því er fyrir liggur. Hún leggur til að lágmark söluverðsins sé fært niður í kr. 2,50.

Nefndin hefir aðhylst tillögu stjórnarinnar um að færa niður lágmarkið, en vill þó ekki fara eins langt og stjórnin leggur til. Við álítum að 3 kr. mundi vera hæfilegt lágmark — það sama sem stjórnin lagði til í frumv. sínu 1905.

Það er augljóst að niðurfærsla þessi er öldungis óskaðvænleg. Í fyrsta lagi eru þetta aðeins heimildarlög; stjórninni er gefin heimild til að selja fyrir þetta verð. Hún getur látið vera að selja, ef henni þykir verðið, sem boðið er, eftir atvikum of lágt. Í öðru lagi er í lögunum, auk lágmarksins, ákveðið, að tveir dómkvaddir menn skuli meta, er kaupa er beiðst, og má stjórnin eigi selja undir virðingarverði því, er þeir ákveða.

Til glöggvunar fyrir þá þingmenn hinnar háttv. deildar, er ekki voru hér árið 1905, og ekki hafa séð lóðina, skal eg taka það fram að undanskildir söluheimild eru tveir afmarkaðir hlutar af lóðinni. Er annar stjórnarráðsbyggingarlóðin, og er hún 9930 ferhyrningsálnir. Hin spildan, sem undanskilin er, liggur fram með Hverfisgötu norðanmegin að þeirri túnræmu (væntanlegu vegarstæði), sem er beint framhald af Lindargötu. Spildan nær alla leið niður að læk, og er hún 46,200 ? álnir að flatarmáli.

Það sem breyting laganna nær til, eru tvær spildur. Er önnur spildan sunnan megin Hverfisgötu, fyrir ofan stjórnarráðslóðina; er það stór spilda, mjög hentug til stórbygginga, og liggur við vönduðustu götu bæjarins. Hún hlýtur að seljast, og verður vafalaust góð tekjugrein fyrir byggingarsjóð með tímanum. Að ekkert hefir selst af henni hingað til, á vafalaust rót sína í hinni almennu peningaeklu og háu vöxtum. — Hin spildan, sem söluheimildin nær til, liggur með sjónum, norður af þeirri skák, sem ætluð er til opinberra bygginga. Er það allstórt túnstykki, en misjafnt, Sumt fagurt og gott tún, en sumt láglent, votlent og nokkuð grýtt. Af því svæði ætla eg að dýrmætastar verði fáeinar lóðir við fjöruna sjálfa, og lang dýrmætastar vegna þess, að fjaran framundan fylgir túninu og mundi verða látin fylgja þeim til afnota, t. d. undir bryggjur. Þar eru einna álitlegastar framtíðarlóðir fyrir verzlun, sem um er að gjöra hér í Reykjavík, sérstaklega fyrir stórkaupa verzlanir, og verða þær vafalaust með tímanum einna verðmætastar lóðir í höfuðstaðnum. Fyrir ofan þessa ræmu er vestan til ágætur húsabyggingarblettur; eystri hlutinn er aftur nokkuð raklendur og liggur lægra.

Af þessum tveim spildum er spildan fram með sjónum miklu stærri. Báðar eru þær samtals 110,000 ferhyrningsálnir að flatarmáli.

Eg hefi skoðað alla lóðina með sjónum tvisvar. Persónulega ætla eg, að hyggilegt væri og rétt af hverri stjórn að athuga rækilega hvort ekki væri ástæða til, ef eftirsókn yrði mikil, að halda eftir hæfilegum bletti fyrir járnbrautarstöð, ef til kæmi að hér yrði lögð járnbraut austur í sýslur. Mér finst að brautarstöð mundi vera mjög vel sett þar, skamt frá lóðum, sem mjög mikil líkindi eru til að verði aðalverzlunarlóðir bæjarins í framtíðinni.

Eins og eg hefi þegar tekið fram, var nefndin sammála um að færa beri niður lágmark söluverðsins, en þó eigi lengra en niður í 3 kr. Það fanst nefndinni að ekki mundi það lágmark geta staðið fyrir sölu á svo álitlegri og dýrmætri lóð.

Fjölyrði eg svo eigi meira um frumv., en álít sjálfsagt að það nái fram að ganga.