22.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

57. mál, lögaldur

Sigurður Stefánsson:

Þetta frv. er gamall gestur hér á þinginu; það hefir oft verið borið upp og stundum samþykt af þinginu, en hefir aftur á móti aldrei fundið náð fyrir augum stjórnarinnar. Frumv. er þess vegna þm. kunnugt. Enda þótt frv. sé ekki langt, er það þó mjög þýðingarmikið.

Þau ákvæði um lögaldur, er nú gilda, eru eiginlega ekki gömul. Í Jónsbók er myndugleiki bundinn við 20 ára aldur. Og þetta mun hafa verið lög hér á landi fram á 19. öld, þar til Dönsku lög voru lögboðin hér um þetta efni, og þá var og hálfmyndugleiki lögleiddur — hafði hann áður ekki í lögum verið — og aldurstakmörkin sett 25 ár og 18 ár.

Þetta frumv. hefir í sér fólgin 2 aðalatriði: að lækka aldurstakmarkið fyrir myndugleika og fella hálfmyndugleika úr lögum. Þessi hálfmyndugleiki er á margan hátt óhentugur, og oft erfitt fyrir hálfmynduga menn að reka réttar síns. Meðráðamenn hálfmyndugra standa ekki undir umsjón hins opinbera. Hinn hálfmyndugi verður sjálfur að reka réttar síns gegn meðráðamanninum án hlutdeildar þess opinbera, er hann hefir aldur til, og getur það oft verið mörgum og miklum vandkvæðum bundið.

Það þarf ekki að sinni að fara langt út í þetta mál, því að það er ljóst í alla staði. Það er kunnugt, að þessi myndugleikaaldur, sem hér er farið fram á, er tekinn í lög í mörgum löndum á síðastliðinni öld, t. d. Norvegi, Englandi, Þýzkalandi, Sviss og Svíþjóð, og á Frakklandi um 1792, en í Danmörku gilda sömu ákvæði enn og hér á landi í þessu efni.

Eg vonast til að frumv. mæti góðum undirtektum í deildinni og hefi ekkert á móti því að skipuð verði nefnd í málið. Nefndin gæti þá tekið til athugunar fleiri atriði, sem standa í sambandi við þessar breytingar.

Að öðru leyti finn eg ekki ástæðu til að tala nú frekar um málið.