15.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

58. mál, skoðun á síld

Sigurður Hjörleifsson:

Eg hefi skrifað undir þetta mál. með fyrirvara. Þegar málið kom fyrst fyrir hér í deildinni, gat eg þess að æskilegast hefði verið, að þetta frumv. hefði verið stjórnarfrumv., því að málið er svo þýðingarmikið og þarf vandlegan undirbúning, og eg gat þess að málið hefði ekki fengið svo vandaðan undirbúning, eins og eg teldi nauðsynlegan.

Eg er ekki samdóma meðnefndarmönnum mínum að því er snertir skyldumat á síld. Eg lít svo á að skyldumat á síld ætti að hafa allar sömu afleiðingar og skyldumat á saltfiski. Þó að skyldumat á síld sé erfitt, þá lít eg svo á, að það sé framkvæmanlegt, því að það átti að viðhafa að eins á þeirri síld, sem aflaðist á gufuskip; annað var ekki farið fram á. Á allri annari síld var matið frjálst. Hinsvegar játa eg að rétt sé að fara varlega í þetta mál, og get þess vegna eftir atvikum sætt mig við að það gangi fram, sem stendur í þingsályktunartil. nefndarálitsins. Eg skal því ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en tek frumv. aftur í fullu trausti þess að háttv. deild láti tillöguna ganga fram.