08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

59. mál, löggilding Skaftáróss

Gunnar Ólafsson:

Því er svo varið um þetta mál, eins og mörg önnur, að það er flutt eftir áskorun kjósenda.

Eins og kunnugt er, er engin höfn á svæði því er hér er um að ræða, en ýmsir staðir þar þó betri lendingarstaðir en aðrir, og eru þeir aðallega við ósa og víkur, er skerast inn í ströndina.

Framrensli ánna mynda oft rif í sjóinn, og er þar skjól eður hlið sem kallað er bakvið rifin. Þannig er því varið með Skaftárós.

Það er ekki meining héraðsbúa að þar myndist föst verzlun, þó löggilding fáist. En verði staðurinn löggiltur, getur það orðið hægra að fá skip til að koma þar við með varning, og mundi það þannig létta að stórum mun aðflutninga sýslubúa, sem nú eru afar erfiðir svo sem kunnugt er bæði á sjó og landi.

Ef skip fengjust til að koma þarna, þá er sérstaklega Síðumönnum borgið í því efni, að þeir fá þungavörur þangað og það er þeim til ósegjanlegs hagræðis.

Eg vona að hin háttv. deild lofi þessu litla máli að ganga fram.