08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

59. mál, löggilding Skaftáróss

Ágúst Flygenring:

Að vísu er eg ekki kunnugur þessum stað sem beðið er um löggilding fyrir, en eg veit að öll strandlengjan þar fyrir sunnan hefir ávalt verið talin hættuleg. Hv. þm. V.-Sk. talaði um að þarna væri rif er mætti hafa skjól af. En það er næsta fjarstæða; það er ómögulegt að hafa skjól af sandrifum, þau eru svo breytileg; þau flytja sig oft á hverju ári.

Það sem hefir komið þessu máli á stað er líklega ekki annað en þessi vanalega ímyndaða hagnaðar von, að góð verzlun muni undir eins koma upp, og skip muni fremur fást til að koma við, ef staðurinn bara er löggiltur. Hvílíkur barnaskapur. — Eg er viss um það, að ekkert skip fæst til að koma á þennan stað.

Sveitaverzlun mætti stofna þar gegnum sýslunefndina, þó ekki væri löggilt, og hefði hún þá sama rétt, sem verzlanir á löggiltum svæðum.

Það er ekki að öllu leyti satt að löggildingar hafi ekki verið feldar hér í þinginu. Það er ekki langt síðan felt var að löggilda stað, þar sem er góð höfn og mikil mannvirki, nefnil. Viðey. Hvernig getur þingið þá verið þekt fyrir að löggilda Kúðaós og Skaftárós. Það skil eg ekki. Enda úir og grúir alstaðar af þessum löggiltu stöðum, sem ekkert gagn er að. — Hvað þessa staði snertir sérstaklega, þá eru þeir með öllu ómögulegir fyrir almennar siglingar; en máski líka það vaki fyrir flutningsmanninum loftsiglingar!