13.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

64. mál, bókasafn vesturlands

Sigurður Stefánsson:

Þetta frv. sem hér liggur fyrir, er í og með komið fram fyrir einróma endurtekna ósk kjósenda minna, en eg skal lýsa því yfir, að eg hefi líka gerst flutningsmaður að því fyrir þá sök, að eg er persónulega sannfærður um, að réttlátara málefni get eg ekki borið fram fyrir háttv. alþingi.

Bókasöfn eru ávalt sterkur þáttur í útbreiðslu allrar menningar hjá hverri þjóð. Og þessa gætir ekki sízt hér á landi, þar sem almenningi er ómögulegt að afla sér fræðslu með öðru móti en einmitt með lestri nytsamlegra bóka. En þegar um bókasöfn er að ræða, verður að halda fastri þeirri meginreglu, að þau séu á þeim stöðum, þar sem flestir geti átt kost á að nota þau. Ekkert getur því verið sjálfsagðara en að hafa þau á fjölmennustu kauptúnum landsins, sem mestar eru samgöngur við úr þeim hlutum landsins, er að þeim liggja. Það er því allsendis óviðurkvæmilegt, að grafa þau niður þar, sem enginn eða sárfáir geta notið þeirra. Bókasöfnin, sem önnur menningartæki, verka mest næst sér, og þess vegna er það áríðandi að þau séu þar sem flest fólk er samankomið, eða á hægast með að ná til þeirra.

Eg þarf ekki lengri inngang að ræðu minni. Þegar litið er á amtsbókasafn Vesturamtsins frá þessu sjónarmiði eða þann stað, sem það er og hefir verið á, þá dylst víst engum, að það getur engan veginn fullnægt þeim meginskilyrðum, sem eg gat um. Meginþorri þeirra manna, sem að réttu lagi ættu að hafa greiðan og góðan aðgang að þeim hlunnindum, sem safnið veitir, fara algjörlega á mis við þau vegna staðarins, sem safnið er á.

Þetta safn hefir um langan aldur verið styrkt af opinberu fé, og eg held mér sé óhætt að kalla það opinbera eign. En þá finst mér að það ætti að vera skylda þingsins að gæta safnsins og sjá um að það komi þeim, sem það er sérstaklega ætlað, að notum. Ef bókasafn, sem nýtur opinbers fjárstyrks, er á óheppilegum stað og fæst ekki þaðan flutt af einhverjum ástæðum, þá er ekki rétt af þinginu að veita slíku safni nokkum fjárstyrk, nema það væri flutt á hentugan stað. Eg ímynda mér að ef nú væri talað um að setja á stofn bókasafn á Vesturlandi, þá mundi engum lifandi manni með fullu viti detta í hug annar staður en Ísafjörður. Það er jafneðlilegt að hafa bókasafn fyrir í Vesturland á Ísafirði, eins og það er ankannalegt, óeðlilegt og óhagkvæmt, að kúlda því niður í einhverju jafn fólksfáu kauptúni eins og Stykkishólmur er nú orðinn í samanburði við Ísafjörð. Það væri auðvitað fyrirtaks staður, ef ætlast væri til þess að safnið yrði lítið eða alls ekki notað, en eg býst ekki við að alþingi líti svo á málið. Og hvað snertir Stykkishólm sem aðsetur bókasafns fyrir Vesturland, þá má kalla að öll kauptún á Vesturlandi sé betur fallin til að geyma safnið, heldur en einmitt þessi staður þar sem það nú er.

Eg skal leyfa mér að benda lítið eitt á sögu bókasafnsins, þó að hún sé sennilega kunn flestum háttv. þingdm. Það voru þeir Pétur heitinn Pétursson biskup og Bjarni Thorsteinsson amtmaður sem stofnuðu safnið og sömdu reglugjörð um það 1847. Í þessari reglugjörð var ákveðið, að bókasafnið skyldi vera í Stykkishólmi. Eg vil með leyfi hæstv. forseta biðja háttv. deildarmenn að hlusta á hvað þessir tveir heiðurs- og vísindamenn töldu staðnum til gildis, þegar þeir kusu hann fyrir safnið:

»Fyrir þetta, af okkur áformaða amtsbókasafn, álítum við aungvan stað eins hentugan og verzlunarstaðinn Stykkishólm í Snæfellsnessýslu, bæði vegna þess, að þar er vön að vera allfjölmenn kaupstefna árlega, ekki einungis úr þeirri sýslu, heldur einnig úr allri Dalasýslu, og úr suðurparti Barðastrandar- og Strandasýslu og útnorður parti Mýra- og Hnappadalssýslna, sem og hins, að þangað og þaðan eru jafnan ferðir vegna apóteksins víðsvegar frá í amtinu. Þar sýndist því hægast fyrir almenning að ná til bókanna og skila þeim þangað aftur í Stykkishólmi, og eigi mjög

langt þaðan, búa líka fleiri mentaðir menn en á nokkrum öðrum stað hér vestra, svo ekki þarf að kvíða fyrir neinni sérlegri torveldni á því, að bókasafni yrði þar nokkurnveginn vel stjórnað og tilsjón höfð með viðhaldi þess, helzt ef svo skyldi fara, sem alls ekki er ólíklegt, að amtmaður Vestfirðinga, fyrir hægðar sakir í mörgu tilliti, seinna meir settist að í

Stykkishólmi eða þar nálægt«.

Þá var nefnilega Stykkishólmur álitlegasta kauptúnið á öllu Vesturlandi, og ferðir úr flestum sýslum Vesturlands þangað tíðastar. Á þetta litu stofnendur safnsins; þeir voru nógu víðsýnir til þess, og létu sér svo ant um að sem almennust not gætu orðið af safninu. En eins og þessar ástæður, sem eg las upp, mæltu þá með Stykkishólmi, þá er það á allra manna vitorði, að þær eru nú gersamlega horfnar að því er þetta kauptún snertir, og það er ómótmælanlegt, að þær eiga nú allar við Ísafjörð. Eg þykist viss um það, að ef slíkir mentamenn sem Pétur biskup og Bjarni Thorsteinsson hefðu átt sæti á þingi núna, þá hefðu þeir verið svo sanngjarnir að gerast forgöngumenn þess, að bókasafnið yrði flutt frá Stykkishólmi vestur til Ísafjarðar.

Eg skal taka það fram, að um síðasta manntal voru 1700 manns á Ísafirði, og þessu fólki fjölgar stöðugt; eg þykist ekki fara með rangt mál, þó eg segi að 100 manns bætist við árlega. En svo verður þar að auki að gæta þess, að það er ekki nema steinsnar til Bolungarvíkurverzlunarstaðar og annara sjóþorpa við Ísafjarðardjúp, er samtals munu hafa um 2000 íbúa. Hæstv. ráðherra (H. H. ) veit það víst t. d. vel, að daglegar samgöngur eru milli þessara sjóþorpa og Ísafjarðar, og eru þó altaf að verða tíðari og tíðari síðan mótorbátar fjölguðu svo mjög. Úr öðrum nærsveitum Ísafjarðar, bæði sunnan og norðan Breiðdalsheiðar, eru samgöngur við Ísafjörð í hverri einustu viku árið um kring, og í þessum sveitum búa 2—3000 manns. Það lætur nærri, að ? allra íbúa í amtinu sé á Ísafirði eða nágrannaþorpunum. Fari maður lengra frá Ísafirði, þá er það víst, að t. d. mikill hluti Barðastrandarsýslu er í miklu tíðara sambandi við Ísafjörð heldur en við Stykkishólm, auk Strandasýslu, sem stendur í fjörugu viðskiftasambandi við Ísafjörð, en hefir alls ekkert saman við Stykkishólm að sælda.

Ef litið er til Stykkishólms, þá sést á síðasta manntali að fólksfjöldinn er þar rúmlega 400, — það er með öðrum orðum ?/?? af öllum íbúum amtsins. En svo má segja að næsti hreppur sé í daglegu sambandi við kauptúnið, en þar eru um 350 manns. Eftir því yrði tala þeirra, sem daglega geta notið safnsins, tæp 800 á móti hér um bil 3500 manns, sem notað gætu það því nær daglega, ef það væri á Ísafirði.

Sumar sýslur í amtinu mundu standa líkt að vígi eftir sem áður, t. d. Mýrasýsla, sem alls ekki notar safnið, og Dalasýsla, sem liggur svo að segja mitt á milli Stykkishólms og Ísafjarðar. Þeim mætti því sleppa, þegar um þetta mál er að ræða. Eftir lausri áætlun má álíta að ? amtsins geti haft mikil not af safninu á Ísafirði, en hér um bil ?/?? ef það er látið vera í Stykkishólmi. Eg skil því ekki að nokkrum óvilhöllum manni geti blandast hugur um, að það sé sjálfsagt að flytja bókasafnið til Ísafjarðar. En þó fer nú frumvarp það, sem eg flyt nú hér, ekki fram á algerðan flutning, heldur að eins um skifti milli amtsbúa á þessu. safni; svo sanngjarnlega er í sakirnar farið. Á Ísafirði er bókasafn með 2000 bindum. Þetta bókasafn hefir myndast smátt og smátt af litlum efnum, en er orðið það sem það er vegna mikils áhuga manna vestra að koma sér upp safni. Samkvæmt frumv. er ætlast til, að þetta safn yrði lagt til aðalsafnsins.

Eg þykist líta með sanngirni á þetta mál, og eg vil heldur ekki fara fram á að alt safnið verði flutt Ísafjarðar. Í frumv. er því ætlast til, að Stykkishólmssafnið haldi útlendum bókum, sem eru gefnar út fyrir árið 1885, og fái að auki annað eintakið af þeim bókum, sem til yrðu í tveim eintökum í nýja safninu.

Eg hefi ekki í höndum bókaskrá Stykkishólmssafnsins lengur en til ársins 1904, En samkvæmt henni mundi bókasafnið í Stykkishólmi halda eftir hér um bil 1400 bindum.

Eftir þeim gögnum, sem ná fram til 1904, eru í eigu safnsins hér um bil 4000 bindi. Þetta er ótrúlega lítil bókatala í svo gömlu safni, sem alt af hefir haft töluverðan opinberan styrk, þegar borið er saman við safnið á Ísafirði. Mér kann að verða svarað því, að lestrarfýsn sé ekki mikil á Ísafirði. Eg skal benda á skýrslu safnsins á Ísafirði, er liggur á lestrarsalnum, og sést af henni, að 3000 útlán hafa verið árið sem leið. Og það í þessu litla safni! Frá Stykkishólmssafninu hafa engar slíkar skýrslur birzt. En eg efast um að útlánin þar nemi helming auk heldur meiru við þetta. Þetta sýnir hver þörf er á bókasafni á Ísafirði, og hve afnotin eru miklu meiri en í Stykkishólmi.

Eg vil í þessu máli að eins reyna að sýna háttv. deild hvað mælir með því að þetta bókasafn sé fremur haft á Ísafirði en í Stykkishólmi. En eg heimta hins vegar ekki að tekið sé frekar tillit til þess, sem eg segi með heldur en aðrir móti málinu, því að tölurnar eiga einar þegjandi að tala. Og þær sýna ljóslega hvað er sanngjarnt og rétt í málinu. Hins vegar veit eg að frá sumra manna sjónarmiði eru agnúar á frumv. En eg geymi að fara frekar út í þau atriði þangað til fram eru komnar mótbárur gegn því.