24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

66. mál, Húsavík eða Þorvaldsstaðir

Framsögum. (Sigurður Hjörleifsson):

Það er mest fyrir siðasakir, að eg bið um orðið, því að eg hefi í rauninni engu við það að bæta, sem tekið er fram í nefndaráliti meiri hlutans. Aðalástæðan fyrir því, að við viljum ekki sinna málinu á þessu þingi, er sú, að hér liggja ekki fyrir nein skjöl um mat á jörðinni eða annan undirbúning málsins, né heldur umsögn æðri stjórnarvalda. Málið er svo mikilvægt, að nefndin álítur það ganga óhæfu næst, ef þingið færi að samþykkja frv. svona algjörlega undirbúningslaust. Reyndar höfum við heyrt það, að mat hafi farið fram á jörðunni fyrir 2 árum. En við höfum ekkert af því mati að segja. Að vísu eiga þetta að vera heimildarlög og að eins tiltekið lágmark verðsins. En við höfum enga hugmynd um það, hvort þetta lægsta verð er nærri sanni eða ekki. Það sýndi sig hér í deildinni í gær, þegar rætt var um sölu Kjarna, hvað menn gátu verið ósamdóma um það, hvað væri hæfilegt verð, þrátt fyrir það að þar lá fyrir greinileg matsgerð kunnugra manna, sem reiðubúnir eru að eiðfesta gerðina Þegar menn gátu verið svo ósamdóma um verðið á Kjarna þrátt fyrir þetta, þá má geta nærri, hvort þingið getur ákveðið lægsta verð annarar jarðar án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut við að styðjast.

Það er því auðsætt, að undirbúningurinn er alt of lítill til þess, að málið geti haft framgang á þessu þingi, og nefndin ræður háttv. deild eindregið til að fella frumvarpið.

Eg skal geta þess, að þegar nefndarálitið var samið, varð ekki annað séð, en að selja ætti jörðina Húsavíkurhreppi þeim, sem nú er. En nú hefir háttv. flutningsmaður komið með breyt.till. sem væri nægileg lagfæring, hvað þetta atriði snertir, ef málið væri sæmilega undirbúið að öðru leyti. En þar sem það er ekki, verður nefndin að halda fast við þá tillögu sína, að frumv. verði felt.