24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

66. mál, Húsavík eða Þorvaldsstaðir

Ágúst Flygenring:

Eg get ekki látið hjá líða að láta það ljósi, að það stórhneikslar mig sá mótþrói, sem hafinn er gegn þessari sölu af einstökum mönnum hér innan deildar. Og kemur sá mótþrói þess kynlegar við, sem hann er einmitt fram kominn frá þeirri átt, sem Kjarnasalan stefndi frá; og sé eg þó ekki að mjög sé ólíku saman að jafna, og sízt þó þeim til málsbótar, sem fyrir standa. Þm. Akureyrar taldi skjöl og skilríki vanta í málinu; það sé eg ekki að hafi við neitt að styðjast, eftir því sem fram er komið, sízt svo, að það ætti neitt í vegi að standa, svo framarlega sem salan væri ekki athugaverð á annað borð. Og verður alls ekki séð eða sagt að svo sé af óvilhöllum mönnum; og að minsta kosti ekki athugaverðari en Kjarnasalan. Annars finst mér öll tvímæli af tekin með áhættu fyrir landsjóð, þar sem jörðin selst eftir mati; enda sýnist það og beinasti og enda einasti vegurinn í slíkum tilfellum, sem hér er um að ræða. Og man eg ekki betur en að einmitt sjálfur þm. Ak., sem nú er þessu manna mest mótfallinn, væri því síðast í gær alveg fylgjandi, að þetta væri einmitt, heppilegasta og sjálfsagðasta leiðin, sem farin yrði; og var eg honum þá alveg samdóma. Nú er komið annað hljóð í strokkinn þeim megin, síðan Kjarnasalan er úr sögunni; og furðar mig annars á að maðurinn skuli ekki fyrirverða sig fyrir slíka ósamkvæmni. — Annars finst mér eiga að gera matsverðið að meginreglu eða ekki. En ekki að hringla úr einu í annað, grunnreglulaust. — Hins vegar getur mér ekki dulist það (og skal eg taka það fram úr því farið var að bera þessar sölur saman á annað borð) að ólíku betur stendur á með þessa sölu, hvað meðmæli snertir, heldur en með Kjarna. Í þessu máli eru öll skjöl sammála með sölunni, — þar alls ekki. Bæði hreppsnefndin í Hrafnagilshreppi og sýslunefndin í Eyjafjarðarsýslu leggja eindregið á móti sölunni; en fámennur fundur á Akureyri stendur þar einn uppi til móts. Í því máli lágu heldur ekki fyrir neinar sannanir um brýna þörf. Hér er alt öðru vísi ástatt. Hér er þjóðjörð, sem liggur undir eitthvert stærsta kauptún á Norðurlandi, — kauptúnið er alt bygt á þessari jörð — og vill kauptúnið kaupa hana með matsverði. Hér er einmitt mjög sanngjarnt að selja eftir matsverði. En þörfin er auðsæ, þar sem kauptúnið er í þann veg að skilja sig frá hreppnum sem það liggur í til að mynda sérstakan hrepp. Hitt er líka auðsætt, að áríðandi er að þetta nái fram að ganga sem fyrst , þar sem kaup jarðar þessarar kaupstaðnum til handa er aðalskilyrðið til þess að skifting hreppanna geti átt sér stað. Mér er hins vegar óskiljanlegt, hver þörf liggur til þess einmitt nú að fara að setja einhver skilyrði, sem hugsanlegt er að megi nota einhvern tíma í framtíðinni að eins til að tefja fyrir sölunni. Þegar svo búið er að slá þeirri reglu eða skilyrðum föstum, þá á að fara að búa til nýja samkvœmni — fyr ekki!