24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

66. mál, Húsavík eða Þorvaldsstaðir

Framsögum. (Sigurður Hjörleifsson):

Mér þykir það leiðinlegt að öll ræða háttv. 3. kgk. þm. er fram komin af misskilningi einum, og ekki að eins óþörf, heldur einnig óþörfust í þess máls garð, sem hann mælti fyrir. Mat hefir alls ekki farið fram á jörðinni eins og tekið var fram af málsflytjanda sjálfum. Það liggur ekki fyrir annað til að halda sér að en lýsing ein. Það stóð alt öðru vísi á með Kjarna; þar lá fyrir matsúrskurður dómkvaddra manna. Það hefði þó vel verið innan handar; og að síðustu hefði mátt telegrafera til Húsavíkur að fengnu leyfi stjórnarinnar til að láta meta jörðina og hefði óefað getað komið í tíma. En því hefir það ekki verið gert? Það var eina ráðið til að koma málinu í framkvæmd; en það hefir verið vanrækt. Þess vegna mega málsleitendur sjálfir sér einum um kenna og öðrum ekki. — Viðvíkjandi þeirri þörf, að á liggi fyrir kaupstaðinn að fá jörðina keypta til þess að geta orðið sérstakur hreppur, þá liggur hún ekki uppi í mínum augum. Eg get bent á annað dæmi því til samanburðar, sem sannar það mál mitt. Það er Sauðárkrókur. Keflavík er meira að segja »prívat«-manns eign. Svo hefði vel getað verið með Húsavík. Svo að frá þessu sjónarmiði hafa málsflytjendur ekkert til síns máls.