13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Að því er þetta mál snertir, þá hefir nefndin ekki séð ástæðu til að breyta afstöðu sinni frá því, sem fram kom við 2. umræðu. Hún hefir ekki við frekari íhugun getað séð, að hér væri um neina brýna nauðsyn að ræða, eða kannast við ágæti frumvarpsins. Ef frumv. í þessa átt ætti að geta komið að notum, þá lítur nefndin svo á, að slíkt frumv. yrði að byggja á alt öðrum grundvelli en hér hefir verið gert. En nefndin hefir ekki álitið þörfina svo mikla, að hún vildi takast á hendur að semja nýtt frumv., og aðrir hafa heldur engar breytingar gert við frumvarpið. Eg skal taka það fram fyrir hönd nefndarinnar á ný, að hún álítur frumv. óþarft, og enda ranglátt, og leggur til að það verði felt.