13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Gunnar Ólafsson:

Eg get ekki látið það vera að taka fram, að mér finst háttv. framsögum., og sérstaklega háttv. 5. kgk. þm., misskilja þetta frv. Hann gerði mikið úr að dómsvald yrði lagt í hendur ólögfróðra manna, en gætir ekki að því, að slíkt er ekki gert nema málsaðilar samþykki, eða með öðrum orðum, að kærði játi skuldina á sig. Eg get því ekki séð, að sáttanefndum sé fengið í hendur vald, sem þær eigi geti vel farið með.

Háttv. þm. tók það líka fram, að þessi lög mundu auka skuldir manna. Þetta er misskilningur. En til þess gæti það orðið, að ýmsum gengi betur að fá lán í svipinn, þar sem innheimtan yrði greiðari og kostnaðarminni, og tel eg það mikilsvert. Lánstraust er hverjum manni nauðsynlegt, og þó einkum þeim, er eigi hafa nægt fé. Gætu nú þessi lög hjálpað að þessu leyti, þá eru þau til mikils gagns, þar sem það er kunnugt, að lánstraust manna þverr vegna óskilsemi, sem því miður á sér alt of víða stað. Nú er ekki hægt að lögsækja menn um litlar upphæðir, því málskostnaður er svo mikill. Þetta gerir öll viðskifti ótryggari, og því þarf að finna auðvelda leið til að menn geti náð rétti sinum í slíkum málum, náð inn réttmætum skuldum án mikillar fyrirhafnar og kostnaðar.

Eg skal svo ekki fjölyrða um þetta, en eg álít frumv. til mikilla bóta og mæli með að háttv. deild samþykki það.