19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

68. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Lárus H. Bjarnason:

Eins og kannske suma rekur minni til, hélt eg því fram á þingi 1902, og í Andvara árið eftir, að ráðherrann ætti ekki að hafa eftirlaun. En stjórnin tók það nú samt upp í stj.skr., svo að ekki er hægt að taka þau af nema með stjórnarskrárbreytingu. Hér er ekki farið fram á að svifta ráðherrann eftirlaunum, að eins dregið úr þeim. Eg vildi helzt að hann hefði engin eftirlaun, og þá náttúrlega næst helzt, að þau væri sem lægst. Því er eg frumv. fylgjandi, en þó með breytingu. Frumv. ætlast ekki til að breyting verði á eftirlaunum ráðherrans, fyr en eftir að ráðherraskifti þau, er nú standa til, hafa farið fram. Það er ófær galli, enda líklega fremur til orðinn af vangá eða misskilningi heldur en hinu, að breytingin eigi ekki að koma niður á næsta ráðherra. Þessum galla legg eg til að bætt verði úr á þgskj. 242. En til þess að breyting þessi geti komist á nú við ráðherraskiftin, þyrfti að hraða frumv. svo gegn um þingið, að það gæti orðið staðfest um leið og ráðherraútnefningin færi fram. Það mætti takast með afbrigðum frá þingsköpunum. Málið gekk nefndarlaust gegn um Nd., og fyrst svo var, þá skilst mér, að það ætti einnig að fara nefndarlaust í gegn um þessa deild.

Skal eg svo ekki fjölyrða um þetta meira, en vona að meiri hlutinn hér í deildinni greiði götu þessa meirihlutafrumvarps úr neðri deild. Eg geng út frá því, að flokkurinn flytji málið í alvöru, en ekki bara til að sýnast.