19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

68. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Kristinn Daníelsson:

Eg styð tillögu háttv. 5. kgk. um það, að málinu verði flýtt, en á annan hátt en hann vill. Eg vil sem sé, að það verði felt frá 2. umr. Eg lít nokkuð svipuðum augum á þetta mál, sem háttv. 4. kgk. þingm.

Háttv. 5. kgk. þm. sagði, að ráðherraembættið ætti ekki að vera eftirsóknarvert vegna launanna og eftirlaunanna. En því síður á það að vera ginningarepli ríkismanna. Þjóðin á að geta vonað að fá í það sína allra færustu menn. En það er þegar farið að brydda á því, að það þyki alt annað en keppikefli. Það kann að vera að lyndiseinkunn okkar Íslendinga eigi nokkum þátt í því, að menn fýsir ekki að taka að sér embættið. En hvernig sem því líður, er þegar sýnilegt, að það getur orðið erfitt að skipa stöðuna vel með þeim núverandi launakjörum. Og hvað mun þá, ef þau verða gerð harðari? Frumv. horfir því ekki til bóta, heldur til skaðræðis, og eg mun greiða atkvæði á móti því við 2. umr.

Eg skal benda á það, að gangi frumv. fram með breyt.till. háttv. 5. kgk. þm., þá liggur ekkert á að flýta því, því að þá næst tilgangur hans hvort sem er.