26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Agúst Flygenring:

Eg á tvær breyttill. við 6. gr. frv. á þgskj. 616, sem háttv. framsögum. hefir minst á.

Fyrri breyt.till. er í því falin, að eg vil færa niður fjárveitinguna til viðskiftaráðunauta úr 10 þús. kr. í 5 þús. kr., sem stafar af því, að eg vil byrja með einn ráðunaut en ekki tvo. Mér þykir það harla mikið í ráðist, að veita 10 þús kr. til ráðunauta fyrir þenna stutta tíma, sem eftir er af fjárhagstímabilinu. Það hlyti að hafa í för með sér kring um 40 þús. kr. fjárveitingu á næsta fjárhagstímabili, þegar litið er til þess, að þessar 10 þús. kr. eru ætlaðar að eins til hálfs árs. Eg legg áherzlu á það, að við ættum að láta okkur nægja einn ráðunaut til að byrja með. Við vitum ekki hvert gagn landið muni hafa af ráðunautunum, og því væri æskilegt að fá nokkra reynslu í þeim efnum, áður en tekið er svo stórt stökk, að stofna tvö dýr embætti. Auðvitað skilst mér, að stjórnin geri þetta í góðum tilgangi, til þess að greiða fyrir verzlun landamanna í útlöndum. En árangurinn er óneitanlega vafasamur. Mér þykir mjög vafasamt, að einum manni takist betur að hækka innlendar vörur á útlendum markaði, heldur en öllum kaupmönnum til samans hefir tekist hingað til, — að slíkur ráðunautur viti betur og fái meiru áorkað í þessu skyni en öll kaupmannastétt Íslands; því er það hæpið að mínu áliti, að þetta mál hafi almenna þýðingu fyrir verzlun landsmanna. Hitt er annað mál, að ráðunautarnir geta sjálfsagt orðið til hjálpar einstökum mönnum, sem lítið þekkja til utanlands. En þó að búast megi við nokkrum árangri að því leyti, finst mér of mikið að byrja með stofnun tveggja embætta, sem verða dýrustu embætti landsins. Hér með meina eg þó ekki, að launin séu of há, ef embættin eru stofnuð á annað borð, því að mennirnir þurfa að kosta miklu til, þurfa að búa sæmilega vel, ferðast o. fl. o. fl., og þurfa endilega að vera fjárhagslega óháðir. En eg vil fá reynsluna fyrst; byrja með einum ráðunaut, og ef góður árangur kemur í ljós, þá bæta öðrum við.

Eg gjöri þetta ekki að kappsmáli, en vildi að eins láta í ljósi skoðun mína á þessu máli. Úr því að háttv. þingmenn meiri hlutans á þingi þykjast hafa tekið þá stefnu, að fara varlega í öll útgjöld, ætti varúðin að koma fram hér ekki síður en annarstaðar. Mér sýnist nóg að veita 5 þús. kr. nú og 20 þús. kr. á fjárlögunum, í stað 10 þús. kr. nú og 40—50 þús. kr. á næsta fjárhagstímabili. Það sýnist mér ekki varlega farið.

Eg hefði líka viljað nota þetta tæki færi til þess að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra þessu viðvíkjandi, ef hann hefði verið hér viðstaddur, en það verður nú ekki af því í þetta sinn.

Þá er hin breyttill. um að fella niður fjárveitinguna til að mæla innsigling á Gilsfjörð. Eg skal játa það, eftir nánari yfirvegun, að það er ef til vill ekki rétt að fella fjárveitinguna alveg niður, en sjálfsagt að lækka hana töluvert. 10 þús. kr. er alt of mikið, það nær ekki nokkurri átt, að mælingin kosti svo mikið. Það hagar svo til, að það má mæla mikið af firðinum af hestbaki um fjöru. Eg segi þetta ekki í neinu spaugi. Eg get frætt háttv. þm. Strandamanna, sem mun hafa komið þessari fjárveitingu að, á því, að firðinum er svona háttað. Og eg get líka frætt hann á því, að það kemur ekki að neinu gagni að fá sjókort yfir fjörðinn. Skip geta ekki farið eftir því, þau verða að fara eftir merkjum á landi. Það eru mjóir álar, sem verður að þræða til þess að komast að Króksfjarðarnesi og inn á Salthólmavík. Þá leið þekkja fjöldamargir kunnugir menn, sem geta gefið nægar upplýsingar án þess að fá háa borgun fyrir. — Eg hygg nú, að háttv. þingmenn játi það með mér, að það er ekki þörf á hárri fjárveitingu, þegar þeir eru búnir að fá upplýsingar um, hvað það er sem vantar. Það er ekki meiningin að fá vísindalega nákvæmt sjókort; það eru sára lítilfjörlegar mælingar, sem þarf við, og verður aðallega að fara eftir sjómerkj um á landi.

Það væri hæfilegt að lækka þessa fjárveitingu ofan í 2000 kr. Eg gjöri þetta ekki að kappsmáli, en vildi aðeins benda á, að þetta er undarlega há fjárveiting, þegar litið er til þess, að háttv. deild hefir víða annars verið mjög sparsöm og felt fjárveitingar til ýmsra þarflegra fyrirtækja.