23.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

68. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Lárus H. Bjarnason:

Eg gat þess við 1. umr., að eg get ekki verið með frumv. eins og það er nú, og því hefi eg komið með breyt.till. á þgskj. 306.

Eg ætla ekki að fara að karpa um það við háttv. 1. kgk. þm., hvort skilningur hans á málinu er réttur. Það getur kannske verið nokkurt álitamál. En þó mun því naumast verða neitað, að hér sé um eftirlaun að ræða, enda þótt eftirlaunarétturinn sé tímabundinn. Og væri þá ekki um neitt stjórnarskrárbrot að ræða, og engin ástæða til að vísa málinu frá fyrir þær sakir.

Eg er samdóma háttv. 3. kgk. þm. um það, að frumv. er ekki vel fallið til þess að verða að lögum, eins og það er nú. En breyt.till. gerir það aðgengilegt fyrir alla, sem á annað borð eru fylgjandi þeirri hugsjón, að þetta embætti ætti að vera eftirlaunalaust eða sem eftirlaunalægst. Eg var á því máli þegar á þingi 1902; en þá var ekki hægt að koma því fram. — Þó að eftirlaunin verði ekki afmáð að sinni, þá er nú samt tækifæri til þess að lækka þau mjög, og það út af fyrir sig er góðra gjalda veit.

Jafnvel þeir menn, sem annars vilja halda eftirlaunum, geta vel verið á móti ráðherraeftirlaunum. Það er sérstaklega vafasamt um þetta embætti, hvort það sé holt að eftirlaunaréttur fylgi því. Embættið verður nóg keppikefli fyrir suma, þó að eigingjarnar hvatir séu ekki í og með, sem alls ekki er útilokað, á meðan ráðherra má búast við 3000 kr. eftirlaunum til æfiloka, jafnvel fyrir stutta embættisþjónustu. Eg tel víst að menn legðu þá minna kapp á að komast í stöðuna, ef eftirlaunin væru engin eða sama sem engin. Og væri skaðinn bættur.

Frumvarpið skerðir ekki rétt nokkurs manns, því að það skerðir ekki eftirlaunarétt þeirra, sem áður höfðu bann, en kemur að eins niður á þeim, sem engan eftirlaunarétt hafa.

Það er ómögulegt að samþykkja frv. eins og það liggur nú fyrir, sízt fyrir minnihlutamenn, meðal annars vegna þess, að það gæti þá ekki náð til þess manns, sem nú verður ráðherra, en kæmi fyrst niður á þeim, sem næstur honum kemur. Það gæti orðið til þess, að tryggja þessum nýja ráðherra lengri starfstíma en hann ef til vill ella myndi eiga, af því að sá sem næstur ætti að koma veigraði sér við að taka við embættinu þegar hann vissi, að jafnmikil eftirlauna lækkun biði hans. Eg vona að slíkt hafi ekki vakað fyrir meiri hlutanum. Og til þess að ráða bót á þessu misrétti, hefi eg komið fram með breyt.till. Annaðhvort er að láta lögin ná einnig til þessa nýja ráðherra eða lát alt setja við það sem nú er.

Lýk eg svo máli mínu, en atkvæðagreiðslan mun sýna, hverjum er það alvara að spara fé landsins á þennan hátt, og hverjum er það ekki alvara.