23.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

68. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Sigurður Stefánsson:

Eg hefi alt af litið svo á, að þetta frumv. væri töluvert athugavert og vildi því setja það í nefnd þegar við 1. umræðu. Og nú sé eg enn betur, að það er full þörf á nefnd í málinu, þegar háttv. 1. kgk. þm. álítur frumvarpið alls ekki frambærilegt. Hann tók það réttilega fram, að eftir því yrði ráðherra sá eini eftirlauna lausi embættismaður landsins, og það væri varla samrýmanlegt stjórnarskránni. — Eg er ekki ánægður með frumvarpið eins og það er, og ekki heldur eins og það verður með breytingartillögu háttv. 5. kgk þm. — Fyrir því sýnist mér ástæða til þess, og legg það til, að setja nefnd í málið.