23.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

68. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Ari Jónsson:

Mín skoðun er sú, að frumvarp þetta sé eigi svo stórkostlega athugavert. Eg álít að það geti alls eigi komið til mála, að það komi í bága við stjórnarskrána. Eg kynni þess vegna bezt við að málið gengi vanaleið, en þar sem undirtektirnar hér í deildinni hafa verið dálítið undarlegar, — allir hafa fundið frumvarpið athugavert; en menn greinir mjög á um það, hvað það sé, sem athugavert er, — þá álít eg sjálfsagt að skipa nefnd í málið. Það er ekki ólíklegt, að ýmsir þeirra manna, er mótfallnir hafa verið nefnd, séu nú komnir að annari niðurstöðu, eftir að hafa heyrt, hve skiftar skoðanir manna hafa verið við umræðurnar hér í dag. Það verða menn líka að játa, að mál þetta er þýðingarmeira, en ýms önnur mál, er sett hafa verið í nefnd hér í deildinni. Eg legg því til, að skipuð sé nefnd í málið nú, og ef það verður ekki gjört, þá mundi vera hyggilegast að málið yrði tekið út af dagskrá.