26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Ari Jónsson:

Eg vil leyfa mér að gjöra athugasemd við ræðu háttv. 3. kgk. þm. Hann áleit, að eg hefði barist fyrir þessu máli. Eg veit ekki af hvaða ástæðu hann heldur það, hvort það er af því að hann haldi, að Gilsfjörður sé norður í Strandasýslu, og eg þess vegna hafi haft afskifti af þessu máli sem þingm. Strandamanna. Sannleikurinn er sá, að eg hefi alls engin afskifti haft af þessu máli. Það hlýtur að vera einhver annar þingm., t. d þingm. Dalamanna eða Barðstrendinga eða eg veit ekki hver. Líklega hefir háttv. 3. kgk. þm. heyrt eitthvað talað um þetta í neðri deild, en varla mun það vera hér í deildinni, sem hann hefir heyrt talað um málið í þá átt, er hann minnist á. En af því að eg er kunnugur á þessum stöðvum, þá get eg gefið þær upplýsingar, að það er til góð höfn á Gilsfirði, Salthólmavík, en innsiglingin þangað er ekki vel þekt, og þarf að rannsaka hana. Enn fremur skal þess getið, að um Breiðafjörð hefir gufubátur gengið síðustu árin og honum hefir gengið mjög illa, af því að skipaleiðirnar þar eru órannsakaðar. Það er því óvíða meiri nauðsyn á mælingum, en einmitt á Breiðafirði.

Þá ætlaði eg að minnast nokkrum orðum á verzlunarráðunautana erlendis, sem háttv. 3. kgk. þm. var ekki beinlínis meðmæltur. Eg álít, að á fáu sé jafnmikil þörf til fjárhagslegra framfara fyrir landsmenn, sem því, að einhver bót sé ráðin á verzlunarviðskiftum við útlönd. Undanfarin ár hafa verið góð ár til lands og sjávar að því er afurðir snertir, en það er verzlunin, hið lága verð á afurðum landsins, er hefir haft í för með sér, að harðæri má teljast meðal almennings. Það væri því eigi að eins sannarleg þörf, heldur skylda þingsins að gjöra tilraun til þess að ráða bót á verzlunarólaginu. Mörgum hygnum mönnum hefir sýnst svo, að vert væri að gjöra tilraun með verzlunarráðunauta erlendis. Auðvitað er mest komið undir því, hvernig maðurinn er valinn í þessa stöðu. En ég efast ekki um það, að vel hæfur maður mundi geta gjört mikið gagn fyrir verzlun landsmanna, ekki sízt pöntunarfélögin eða bændaverzlunarfélögin. Það hafa og komið raddir ýmsar frá almenningi, þar á meðal frá 5—6 þingmálafundum, um það, að skipaðir yrðu verzlunarráðunautar erlendis fyrir Íslands hönd. Enginn efi er á því, að erindrekarnir mundu verða til mikils stuðnings fyrir erlend viðskifti Íslendinga, jafnframt því, sem erindrekarnir gætu verið á verði fyrir Íslands hönd í ýmsum öðrum viðskiftum og málum.