26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Kristinn Daníelsson:

Framsögumaður gat þess meðal annars, að því sem ætti að koma til leiðar með þessu, yrði að eins frestað um eitt ár, — en því hefir verið frestað um eitt ár. — Þessu næst vildi eg minnast nokkrum orðum á veginn í Gullbringusýslu. Hann hefir í síðustu fjárlögum verið kallaður vegurinn frá Hafnarfirði að Vogastapa. Þetta var því til fyrirstöðu, að byrjað væri á veginum fyrir sunnan Vogastapa. En nú er vegurinn kallaður sínu rétta nafni á fjárlögunum, sem nú fara frá þinginu, og treysti eg því, að ekki verði hangið svo fast í nafninu einu, að það verði veginum til fyrirstöðu. Leyfi eg mér því að bera fram viðaukatill. þessu viðvíkjandi, og gjöri eg það eftir samráði við þann mann í stjórnarráðinu, sem hér hefir mest með að gjöra. Eg lít svo á, að þetta hefði að vísu ekki þurft, en þótti þó réttara að gjöra það, og mæli eg með því, að alþingi láti sig það ekki miklu skifta, hvernig sýslunefndin ráðstáfar fénu, auðvitað þannig, að öll skilyrði séu haldin. Framsögumaður taldi það á móti þessu, að lögin þyrftu þá að koma í sameinað þing. Sé eg ekki að svo mikið sé á móti því, þótt breytingartillagan komist að. Verði hinar aðrar breyt.till. samþyktar, komast þau það hvort sem er, og verði það ekki, þá eykur lítið á prentun að bæta þessum viðauka aftan við lögin. — Fer eg svo ekki þar um fleiri orðum að svo stöddu.