16.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

69. mál, almenn viðskiptalög

Ágúst Flygenring:

Eins og háttv. deildarmenn sjá er frumv. þetta stór lagabálkur og þýðingarmikill. Þýðingarmikill af því, að hann lögfestir ýmsar venjur, er tíðkast í viðskiftalífi okkar, og fer enda lengra, og jafnvel lengra en þörf er á, því hann lögfestir ýmsar venjur, sem ekki tíðkast í viðskiftalífi okkar, en sem hafa verið notaðar annarsstaðar á Norðurlöndum. Kemur það af því, að frumv. þetta er þýðing á viðskiftalögum, er samin voru af nefnd, er í sátu fulltrúar fyrir Svía, Norðmenn og Dani, en vér áttum þar engan fulltrúa.

Eg hefi kynt mér »diskussion«, er fram fór um lög þessi í Kaupmannáhöfn í vetur og tóku þátt í henni ekki aðeins verzlunarfróðir menn, heldur líka lögfræðingar, og luku allir upp um það einum munni, að lögin væru vel og skipulega samin.

En neðri deild hefir litla rækt lagt við frumv. þetta; það gekk í gegnum þá deild nefndarlaust, breytingalaust og því nær umræðulaust. Mundi eg telja það mjög illa farið, ef jafn merkilegt frumv. sem þetta lagafrumv. yrði látið mæta sömu meðferð hér, enda vona eg að svo verði ekki, og vildi eg því leyfa mér að stinga upp á, að 5 manna nefnd verði kosin í málið, þegar þessari umræðu er lokið.