23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

72. mál, sala kirkjujarða

Kristinn Daníelsson:

Eg vildi að eins leggja það til, að þetta frumv. verði felt. Mér finst það koma illa við, að fara að selja hjáleigur frá prestssetrum með ekki nákvæmari skorðum, en settar eru í þessu frumv. Það var nógu langt gengið með lögunum um sölu kirkjujarða frá síðasta þingi, þó að ekki sé bætt við heimild til að selja hjáleigur prestsetra. Það þyrfti þá að minsta kosti að undantaka þær hjáleigur, sem liggja alveg inni á prestsetursjörðinni, eins og víða á sér stað. Hvað meint er með orðunum »sérstakt býli« er óljóst. Það má kalla allar hjáleigur sérstakt býli. Það þyrfti að minsta kosti að taka það skýrt fram, að átt væri við þau býli ein, sem eru metin til dýrleika sérstaklega. Hitt á sér víða stað, að hjáleigur eru metnar með allri staðareigninni, og væri ófært að selja slíkar hjáleigur. — Mér finst frumv. ekki vera hæft til þess að verða að lögum eins og það nú er, og vil leggja til, að það verði felt.