26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

73. mál, hæstiréttur

Lárus H. Bjarnason:

Það er mjög ánægjulegt að sjá, að þetta frumv. er komið fram hér á þingi, því að eg þykist vita, að það sé flutt í alvöru og með von um framgang. Það er borið fram af háttv. meiri hluta, og eg veit ekki til að hæstv. ráðherra hafi amast við því; maður verður því að álíta, að hann hafi fengið von um framgang þess. Eg hefi ávalt skoðað þetta mál eitt af lífsskilyrðum hinnar íslenzku þjóðar, og þó eg hefði reyndar fremur óskað að geta samþykt það í öðru frumvarpi, þá vil eg, úr því þess er ekki kostur, leggja eindregið með því að það sé samþykt í þessu frumvarpi. Að setja nefnd í málið væri að stytta því stundir, þar eð tíminn er svo naumur, og því vil eg leggja til, að það verði látið ganga nefndarlaust gegn um deildina. Reyndar eru atriði í frumvarpinu, sem eg hefði viljað breyta; t. d. er mér engin launung á því, að eg álít laun dómstjóra of lág samkvæmt frumvarpinu, þau mega ekki minni vera en 6000 kr. En ef við á annað borð fáum dóminn hingað, þá getum við breytt fyrirkomulagi hans eftir vild, og því má vel samþykkja þetta frumvarp eins og það er. Eg vil því mæla eindregið með því, að það verði látið ganga nefndarlaust til 2. umr.