26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

73. mál, hæstiréttur

Sigurður Stefánsson:

Eg skal taka það fram fyrir hönd meiri hlutans, að þetta mál er ekki í minsta máta flokksmál; það er að eins borið fram af einum manni í flokknum. En mín afstaða í þessu máli er sú sama sem í háskólamálinu, að eg er hugmyndinni hlyntur, en álit tímann ekki heppilegan til að framkvæma hana, meðal annars af því, að slík breyting á dómaskipun landsins mundi hafa töluverð aukin útgjöld í för með sér. Auk þess veit eg ekki, hvort þetta er svo nauðsynlegt; það er æði sjaldan, að mál fara til hæstaréttar. En þó þykist eg vita, að Ed. muni vilja sýna þessu máli þá virðingu, sem öllum stórmálum er sýnd, að setja það í nefnd, og vil eg gera það að tillögu minni, að svo verði gert að loknum umræðum.