28.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

73. mál, hæstiréttur

Gunnar Ólafsson:

Eg greiddi atkvæði á móti því, að nefnd yrði skipuð í þetta mál við 1. umr. En nú skal eg leyfa mér að stinga upp á því, að þessari umræðu verði frestað og kosin 5 manna nefnd til að íhuga málið.

Eg hafði ekki átt kost á að kynna mér þetta frumv. nógu vel á undan 1. umr., en eg hefi síðar séð, að staðhæfingar háttv. 5. kgk. þm. um það, að óþarfi væri að íhuga þetta mál í nefnd, hafi ekki verið réttar, og var það að vonum, að hann yrði viðsjáll í þessu máli.

Það er ýmislegt athugavert við frumv., t. d. að áfrýjun er bundin við 100 kr., stefnufrestur er settur of stuttur o. s. frv. Þess vegna leyfi eg mér, eins og eg tók fram áðan, að stinga upp á að umræðu verði frestað og kosin 5 manna nefnd.