07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Júlíus Havsteen:

Mig furðar mjög á því, að andróður hefir komið fram gegn frumvarpi þessu, þar sem um jafn auðsætt hagræði er að ræða eins og hér liggur í augum uppi bæði fyrir landsjóð og bankann.

Í nefndarálitinu eru fyrst taldar upp allar þær ívilnanir og hlunnindi þau sem Íslandsbanka hafi verið veitt, og finst mér satt að segja þetta eigi koma málinu neitt við. Mótmæli þau, sem svo þar á eftir koma fram í nefndarálitinu, eru eins og efa bundin; hér er ekki um hrein og bein og rökstudd mótmæli að ræða. Hinn háttv. framsögumaður er að vísu meir ákveðinn í útlistun sinni á þessum mótmælum, og tilfærir ástæður sínar, en eg hefi samt ekki getað sannfærst af þeim.

Tilgangur frumv. er sagður tvennur: hlutabréfin eiga að greiða úr peningaþörf landsmanna, og í öðru lagi eiga yfirráð bankans að komast í vorar hendur, jafnframt því að landið eignist allmikinn hluta bankans. Hinn háttvirti framsögumaður álítur um fyrra atriðið, að peningarnir fyrir hlutabréfin kæmi landsmönnum ekki að notum, því féð verði notað til þess að borga með skuldir bankans í útlöndum. Þessu verð eg að mótmæla, því það liggur í augum uppi, að ef bankinn borgar skuldir sínar, þá fær hann fé aftur til þess að lána út hér og eykur lánstraust sitt. Eg efast ekki um, að fleiri hafi reynt þetta í daglegu lífi.

Að því leyti er snertir hitt atriðið, þá legg eg lítið upp úr öllu talinu um yfirráðin yfir bankanum. Eftir hinum núgildandi reglum um bankann hefir landið þá hlutdeild í yfirráðunum yfir honum, sem mér finst vera nægileg, en sem sagt, eg legg enga áherzlu á þetta. Svo mikið er þó víst, að yfirráðin aukast nokkuð við það, að landið verður eigandi að 2 miljónum í bankanum.

Að því leyti, er snertir kjörin, sem frumvarpið býður, sagði hinn háttvirti framsögumaður, að hlutabréf bankans stæðu nú í 99 með þeim auka-arði, sem hann til tók. En sannleikurinn er sá, að þau standa þvert á móti nú í 103— 104, og má telja víst, að þau komist hærra þegar lengra líður. því að það er öllum kunnugt, að banka þessum er mjög vel stjórnað, og allir seðlabankar, sem bygðir eru á góðum grundvelli og vel er stjórnað, eru sannarlega arðsöm eign. Það er því hin fylsta von þess, að þessi kaup geti orðið til hins mesta hagnaðar fyrir landsjóð, og þó að landið verði nú að borga nokkra milligjöf, mun hún með tímanum vinnast aftur upp á rentum þeim sem landsjóður fær af hlutabréfunum.

Þætti mér því, þegar á alt þetta er litið, mjög illa farið, ef frumvarpið næði ekki fram að ganga og ekkert yrði úr kaupunum. Og lít eg svo á, sem þau úrslit málsins mundu valda því að landsjóður færi þar á mis við mjög mikinn hagnað.