07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Steingrímur Jónsson:

Eg leyfi mér að lýsa því yfir, að eg undrast stórum undirtektir nefndarinnar í þessu máli. — Það hefir verið talað um, að það væri ilt, að bankinn væri ekki innlend eign, og að við hefðum þar ekki meira fé og yfirráð en við höfum. Og játa eg, að þau ummæli séu að nokkru á rökum bygð. — En það hefir frá því fyrsta verið hugsjón mín að við gætum fengið hluti í þeim banka, sem veittu okkur yfirráð yfir honum.

Auðvitað skal eg játa, að íslenzkir menn eiga í bankanum hluti sem nema svo að hundruðum þúsunda skiftir. — Frummælandi játaði, að tilgangurinn með frumvarpinu væri góður. En tilgangurinn er þessi tvennur: annars vegar að greiða fyrir þeirri eklu á peningum, sem ríkt hefir og ríkir enn innanlands, — og hins vegar að koma því til leiðar, að íslenzkir menn nái meiri yfirráðum en þeir hafa haft yfir bankastofnun þessari. Þetta segja nefndarmennirnir að ekki náist með frumvarpi þessu, þótt að lögum yrði. — Það var einmitt bent á það af háttv. 1. kgk. þm., að þvert í mót mundi hvor tveggja þessi tilgangur nást með lögunum (ef að lögum yrðu). Og skal eg þar nokkru við bæta hans ástæður. Þótt það að vísu liggi í augum uppi, sem hann tók fram, að mjög miklar líkur, og enda vissa, sé fyrir því, að þó að bankinn notaði nokkuð af fjárauka þeim, sem honum hlotnaðist á þennan hátt, til að greiða úr skuldum sínum erlendis, og efldi þar með lánstraust sitt, svo að hann ætti hægra með að bæta úr eftirspurninni eftir peningum hér innanlands, — þá er og heldur als engin vissa fyrir því, að að honum yrði gengið með skuldirnar. Og gæti hann þá þess fremur bætt úr innlendu peningaþörfinni. Svo að á hvern veg, sem á málið er litið, og hvernig sem fyrir slæst í þessu atriði, þá hlýtur þó niðurstaðan undir öllum kringumstæðum óhjákvæmilega að verða til ómetanlegs hagnaðar fyrir landsjóð og landsmenn.