07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Jens Pálsson:

Eg vil gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli, og hún er sú, að eg álít að við eigum að fella þetta frumv. Eg hefi ekki enn sannfærst um að þessi kaup séu heppileg. Eitt atriði vil eg taka fram, sem að mínu áliti er mjög mikilvægt, og það er, að þessi hlutabréf eru eins og öll önnur hlutabréf meira og minna áhættubréf. Eg skal benda á það, að seðlaútgáfan getur verið tvíeggjað sverð, sem verður að brúka með mestu varúð. Við höfum enga vissu fyrir því, þó þessi bréf gefi nú 6½ % vexti, að þau gefi það framvegis. Sömuleiðis er það rétt, sem sagt var áðan, að landsjóður gefur betri bréf fyrir lakari bréf, því bréf landsjóðs eru fyllilega trygð svo lengi sem heil brú er í þessu landi, en hlutabankabréf eru ekki að sama skapi fulltrygð; og það er meir í það varið að bréfin séu trygg, en að þau geti stöku sinnum gefið háa vexti.

Önnur ástæða mín á móti þessu frv. er, að eg tel það hættulegt að nota of gapalega lánstraust landsins. A það má ekki reyna né sverfa að því, nema nauður reki til. Enn ein ástæða er það, að ef hlutafé bankans er þannig alt í einu aukið um 2/5, gæti vel farið svo, að hann færi að verzla of mikið, stækkaði verzlunina meir en bolmagn er til, eins og kaupmönnum hættir oft við, ef »kapital« þeirra eykst.

Að endingu skal eg taka það fram, að þar sem engin trygging er fyrir því, að þessu fé verði varið til að bæta úr þörfum landsmanna, þá get eg ekki felt mig við að hlaupa að því, að stíga þetta stóra spor; þó það gæti orðið góð »spekulation«, ef það hepnaðist, þá er það þó ávalt mjög áhættubundið.