07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Lárus H. Bjarnason:

Eg stend aðallega upp til þess að svara háttv. 1. og 4. kgk. þm. nokkrum orðum. Háttv. 4. kgk. þm. sagði, að fulltrúaráðið hefði lítil völd; meðal annars kysu hluthafar framkvæmdarstjórn bankans. Háttv. þm. virðist ekki hafa kynt sér sem skyldi reglugjörð bankans. Samkvæmt 19. gr. hennar hefir fulltrúaráðið hina æðstu forstöðu bankans og allra mála hans á hendi. Og samkvæmt 24. gr. kýs fulltrúaráðið framkvæmdarstjórn bankans. Annað mál er það, að hluthafarnir hafa samkvæmt reglugjörð Albertis yfirtökin fyrstu 9 árin, en þau eru nú meira en hálfnuð. Ennfremur má benda á það, að samkvæmt 17. gr. laga frá 7. júní 1902 um heimild til að stofna hlutafélagsbankann, hefir ráðherra Íslands rétt og skyldu til að ónýta hverja þá ályktun aðalfundar hluthafanna, sem honum þykir koma í bága við tilgang bankans eftir inngangsorðum laganna, en þau fara í þá átt, að bankinn skuli yfirleitt bæta úr peningahögum landsins.

Eg fór rétt með orð háttv. 1. kgk. þm. Hann bar fram tvær ástæður með frumv. önnur var sú, að landið fengi yfirráð yfir bankanum, en hin að veltufé bankans ykist, ef kaupin yrðu samþykt. En hann hjó úr hendi sér fyrra vopnið, þar sem hann sagði, að hann legði ekki áherzlu á yfirráðin, af því að þyngdarpúnktur þeirra væri einmitt hér Bæði hann og háttv. 4. kgk. þm. vildu mata mig á því, að eg væri í fulltrúaráði Íslandsbanka og ætti því að bera góðan hug til hans. Eg ber góðan hug til bankans, en ef hagsmunir bankans og landsins rekast á, þá er eg landsins megin. En hér fer prýðisvel saman, hagur bankans og landsins. Bankinn getur selt öðrum sín bréf á 103 eða 104 eftir því sem háttv. þm. segja; það er honum hagkvæmara en að þurfa að selja þau landinu á 101. Og landinu er það í hag, að þurfa ekki að kaupa bréfin með þeim kjörum sem heimtuð eru. — Út af því sem háttv. 4. kgk. þm. sagði um verkaskiftingu milli bankanna, skal eg benda á það að verkum má skifta milli þeirra alveg eins, þó þetta frumv. gangi ekki fram að sinni. Það má ef til vill seinna fá Íslandsbanka allan seðlaútgáfuréttinn, móti því að hann veiti Landsbankanum í þess stað eitthvað af sínum lögleyfðu réttindum. — Enn er það í mínum augum stór ástæða til að hrapa ekki að þessu máli, að það hefir fengið mjög lítinn undirbúning á þinginu. því, þó að málið komi frá nefnd, þar sem »fjármálamenn« eins og þm. Dalamanna og 2. þm. Reykvíkinga eiga sæti, þá verð eg þó að telja það lítt undirbúið, ekki sízt þar sem Ed. hefir haft svo nauman tíma til að íhuga það. Eg legg því til að málinu verði lokið með rökstuddri dagskrá sem eg skal leyfa mér að lesa upp: »Í því trausti, að landstjórnin athugi bankamál landsins til næsta þings, þar á meðal hvort tiltækilegt sé að landsjóður kaupi hluti í Íslandsbanka, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá».

Þessa dagskrá bið eg hæstv. forseta að bera undir atkvæði á sínum tíma, og get þess um leið, að háttv. þm. Ísf. hefir fallist á hana.