07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Stefán Stefánsson 6. kgk. þm.:

Eg bjóst við því að ræður háttv. 5. kgk. þm. yrðu veigameiri en þær reyndust. Eg man ekki til að hann reyndi að hrekja eitt orð af því sem eg hafði sagt. Hann sagði að vísu að við hefðum nokkur umráð yfir bankanum; það er að vísu satt, en ætli þau verði ekki meiri ef landsjóður yrði stærsti hluthafinn í bankanum og gæti meðal annars ráðið því, ásamt alþingi, hverjir sitja í fulltrúaráðinu og jafnframt ráðið mestu á aðalfundum. En aðalfundir geta haft mikil áhrif á rekstur og stjórn bankans. Þeir geta meðal annars vikið bankastjórunum frá. Og mér finst óhætt að búast við því, að ef landið væri stærsti hluthafinn í bankanum, þá séu þar með líkur til þess, að bankinn verði að meiri notum fyrir landsmenn. Háttv. 2. kgk. þm. sagði, að hér yrði að hugsa um, hvað næsta skrefið yrði. Eg hefi — þó eg sé ekki bankafróður — hugsað þetta nokkuð. Hann sagði einnig að eftir að landsjóður hefði fengið hlut í Íslandsbanka, myndi hann líta bankann öðrum augum en nú. Það vona eg einmitt að landsjóður geri og skifti störfunum eðlilegar og hyggilegar milli bankanna en verið hefir, en fyrsta og hyggilegasta sporið í þessa átt virðist einmitt vera það, að landið fái full umráð einnig yfir Íslandsbanka. — Það gæti orðið miklu gagnlegra, ef t. d. annar bankinn væri veðbanki, og hefði þá líka öll sparisjóðsstörf, en hinn bankinn væri aðallega seðlabanki. — Allri slíkri skiftingu á starfsviði bankanna, sem miða ættu að því, að þeir gætu komið landsmönnum að sem mestu gagni, er auðvitað því hægra að koma fyrir, sem landsjóður hefi meiri eignar- og yfirumráð yfir báðum bönkunum.

Þá var háttv. 2. þm. G.-K. að hræða oss með því, að landsjóður mætti ekki brúka of gapalega lánstraust sitt. Hér er eg á sama máli. — Við höfum verið sammála í öðru stóru máli á þessu þingi, nfl. »Thore«-málinu, sem laut að því, að landsjóður tæki lán. Það var gott mál, en það var áhættumeira en þetta. — Hann talaði líka um það, að engin vissa væri fyrir því, að það fé, sem fengist á þann hátt, sem frumv. gerir ráð fyrir, yrði notað, eða hvernig það yrði notað. Eg ímynda mér þó að féð yrði alla daga ekki síður notað landinu í hag, þó landið fengi aukin umráð yfir bankanum.

Þá sagði háttv. 5. kgk. þm., að hag bankans væri vel borgið, þar sem hann gæti nú selt verðbréf sín fyrir 103—104. Eg sagði að í lok aprílmánaðar hefðu þau staðið í þessu verði, en eg get ekkert um það sagt, hvort þau seljast fyrir þetta verð nú.

Eg man svo ekki til að eg þurfi að minnast á fleira, en þess vænti eg, að þessi rökstudda dagskrá verði feld og frumv. samþ. Eg ímynda mér að það myndi mælast vel fyrir út um landið, ef þingið stigi svona verulegt spor til þess, að landið gæti fengið umráð yfir bankanum, því menn eru alment óánægðir yfir því, að hann skuli vera útlend stofnun. Og því þykir mér undarlegt, að háttv. 2. þm. G.-K. skuli vera frumvarpi þessu mótfallinn, jafn góður Íslendingur og mikill sjálfstæðismaður og hann er, því hann má vita, að efnalegt sjálfstæði hverrar þjóðar er nauðsynlegt skilyrði fyrir réttarlegu sjálfstæði hennar.