07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Framsögumaður (Jósef Björnsson):

Það er að bera í bakkafullan lækinn, að tala meira um þetta, því bæði háttv. 5. og 2. kgk. þm. hafa sérstaklega glögt sýnt fram á, að nefndin hafi ástæðu til þess að láta málið ekki fara lengra að þessu sinni.

Háttv. 6. kgk. þm. sagði, að engin sönnun væri fyrir því, að bankinn notaði þetta aukna fé til þess að borga skuldir erlendis og taldi það sennilegt, að með þessu móti mundi koma fé inn í landið, því þó erlendar skuldir yrði borgaðar, yrði tekið nýtt lán.

Eg tek það fram aftur, að nefndin hefir einmitt sérstaka ástæðu til að halda að féð gangi til skuldalúkninga, af því að hún hefir spurst fyrir um það, og fengið glögg svör. — Svo var hann að tala um vextina. Hann taldi að á 40 árum yrði bankinn búinn að græða alt hlutaféð, þar eð þeir 2% sem hann græddi á peningunum leiddi til þess, en það er engin vissa fyrir því, að bankinn geti altaf fengið þessar rentur, og þetta er því bygt á ágizkun.

Þá fór sami háttv. þm. að draga úr því í seinni ræðu sinni, sem hann sagði í hinni fyrri, nefl. því, að hægt væri að selja hlutabréfin fyrir 103. Hann sagði nú í seinni ræðunni, að líkindi væru til þess að selja mætti bréfin og þar af leiðandi hlypi tíminn burtu frá landsmönnum til að ná í þau. Hér verð eg að gera það sama og hann gerði sjálfur ; að efast um þetta. Því það er þó talið rétt að bankinn hafi ekki selt hlutabréfin, af því hann hafi ekki getað selt þau. Hvað snertir ilt árferði fyrir bankann undanfarið, þá má nú líta á það frá ýmsum hliðum, en þess ber að geta að fé bankans hefir verið úti fyrir háa vexti, og á því hefir bankinn grætt. Háttv. 5. og 2. kgk. þm. töldu mál þetta ekki sem bezt undirbúið, og þar sem í ráði er að endurskoða bankalöggjöfina, mælti það meðal annars með því, að ráða málinu ekki til lykta á þessu þingi. Eg mun því greiða atkv. með hinni rökstuddu dagskrá.