07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

76. mál, farmgjald

Kristinn Daníelsson:

Eg get sjálfsagt búist við að það sé um seinan að tala nokkuð um þetta mál hér í deildinni. En það fekk svo ógestrisnar móttökur, þegar það kom hingað í fyrstu, að eg vildi þó sýna einhvern lit á að leiða rök að því, að það hafi átt betri viðtökur skilið, því að þetta er að minni skoðun gott mál. Allir eru á eitt sáttir um það, að brýna nauðsyn beri til þess að auka tekjur landsjóðs, þó svo að fólki verði sá tekjuauki ekki mjög tilfinnanlegur. Allir þingmenn hafa fundið sárt til fátæktar landsjóðs, þegar verið var að ræða fjárlögin, og þeir hafa orðið að sleppa mörgu, sem þeir annars hefðu óskað að hægt væri að framkvæma. Það má nefna bæði samgöngubætur og fræðslumál og margt fleira.

Þetta frumvarp er að vísu ekki ný braut, en eg verð þó að telja það heppilegt spor. Ef frumv. fengi fram að ganga, þá hefði það í för með sér tekjuauka, sem að vísu yrði ekki mjög mikill, en þó nokkur þegar í byrjun. Ef litið er með fullri sanngirni á þetta mál, þá er það auðvitað mál að verðtollur hefði verið betri, eins og háttv. 3. kgk. þm. tók fram. En eg vil þó taka það fram, að þó þetta sé ekki beinlínis verðtollur þá lætur það þó í reyndinni nærri. Hækkun á vörum yrði mjög lítil. Og hæsta hækkunin yrði eftir »procentum« mjög lág, þegar hún væri borin saman við þá verðhækkun, sem búast má við að yrði, þegar búið er að leggja skattgjald á allar vörur, sem flytjast til landsins.

Háttv. 3. kgk. þm. fann það málinu til foráttu, að það væri óundirbúið. Þetta álít eg ekki rétt. Eg veit til þess að mjög vel hæfur maður hefir varið miklum tíma til þess að athuga það með nefndinni í Nd., hvernig lögin mundu koma niður á ýmsum vörutegundum í reyndinni. Og eg hefi hér í höndunum skýrslur um þær athuganir.

Eg skal játa það, að gjaldið af kartöflum hefði átt að vera nokkuð lægra og sama má ef til vill segja um nokkrar aðrar vörutegundir. En þeir gallar eru þó svo lítilsverðir, að þeir ættu ekki að geta riðið frumvarpinu að fullu.

Háttv. þm. reiknaði út, hvað gjaldið næmi miklu að tiltölu við innkaupsverð. En eg vil ekki miða við það, heldur útsöluverðið. Því að það eru auðvitað ekki kaupmennirnir, heldur landsfólkið, sem verður að borga farmgjaldið, þannig að það verður að borga vöruna þeim mun hærra verði, sem farmgjaldinu nemur. Þegar svo er reiknað mundi kartöflutunnan verða kringum 5 % dýrari vegna farmgjaldsins en ella. því að útsöluverð á kartöflum er kringum 8—12 kr. og farmgjaldið næmi 50 aurum. Þessi 50 aura verðhækkun er engin ósköp þegar miðað er við framfærslu kaupmannsins hvort sem er, sem vanalega nemur 2—3 kr.

Eg skal geta þess, að það kom ekkert flatt upp á mig, að kaupmenn fóru að senda þinginu þessi erindi og áskoranir um að fella þetta frumvarp. Það má búast við að þeir komi með slíka beiðni, hvenær sem þess konar skattur verður lögleiddur, enda skal eg benda á, að í erindi þeirra er þess óskað, að farmgjöld verði aldrei lögleidd. En eg skil ekkert í þeim hávaða, sem hefir verið gerður út af þessu, þar sem um svona lítilfjörlegan skatt er að ræða. Nú er borgaður kringum 800 þús. kr. tollur af örfáum vörutegundum, en hér er um að ræða, að jafna 100 þús. kr. á alla tollstofna landsins, svo að það er auðséð, að verðhækkunin getur ekki orðið nema mjög lítilfjörleg.

Eg vil mæla sem bezt með þessu frumv. Það er tilraun í smáum stíl, en getur gefið mikils verða reynslu, sem hægt væri að byggja á þegar farið verður fyrir alvöru að innleiða sem líkasta tolla þeim, er lagðir eru á að tiltölu við verð. Þess konar tollar, hreinir verðtollar, eru sjálfsagt heppilegri að ýmsu leyti, en þeir hafa aftur þann ókost, að þeir útheimta töluvert meira tolleftirlit.