07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

76. mál, farmgjald

Sigurður Stefánsson:

Eg verð að taka í sama streng og háttv. 3. kgk. þm. Mér þykir undirbúningurinn engan veginn nægilegur, til þess að það sé gerlegt, að samþykkja þetta frumv. nú. Deildarmenn hafa verið svo önnum kafnir síðan málið barst deildinni, að þeir hafa naumast haft tíma til að hugsa neitt verulega um það. Eg get sagt fyrir mitt leyti, að eg hefi varla haft tíma til að lesa frumvarpið yfir, og er öldungis óviðbúinn að greiða atkvæði með því eða móti.

Eg vil líka benda á það, að þetta mál er komið óvanalega leið inn á þingið. Eg man ekki eftir að það hafi nokkurn tíma komið fyrir áður í þingsögu landsins, að tollmál hafi verið borin fram af hálfu þingmanna. Þau hafa ávalt komið frá stjórninni. Og af hverju? Af því að það hefir alt af verið álitið, að slík mál væru vandamál, sem þyrftu mikinn undirbúning. því hefir stjórnin undirbúið þau vandlega, oftast með tilstyrk þingsins, og síðan borið þau fram.

Undirbúningurinn hefir verið slæmur hér í deildinni, og eg hygg að svo hafi einnig verið í neðri deild. Þar hafa líka verið miklar annir, og menn munu ekki hafa hugsað þetta mál svo vel sem skyldi.

Eg vil líka benda á það, að það er hvergi talin skylda þings að hafa frumkvæði að nýjum skattalögum. Stjórnin ber fram slík mál, þegar henni þykir við þurfa, og þingið sker úr frá sínu sjónarmiði, hvort tillögur hennar um aukna skatta eru á rökum bygðar.

Hin nýja stjórn hefir auðvitað ekki haft tíma til að koma með neinar slíkar tillögur, en hins vegar sýnist ekki vera svo brýn þörf fyrir aukna skatta á næsta fjárhagstímabili, að það sé ástæða til að bregða út af reglunni þess vegna.

Eg skal játa það að vísu, að fjárhagurinn er ekki í sem beztu lagi. En til þess að bæta úr því, hefði þetta þing átt að spara útgjöldin sem allra mest. Það var rétta leiðin, en ekki að koma með nýja skatta að þessu sinni; því síður sem ný skattalöggjöf yfir höfuð stendur fyrir dyrum.

Háttv. þm. V.-Ísf. sagði, að þetta væri að eins smátt byrjunarspor og virtist treysta því, að menn mundu sjá sér fært að halda áfram á sömu braut á næsta þingi. Eg skal engu um það spá, en jeg legg áherzlu á það, að í slíkum málum verður að gæta sín mjög vel, áður en fyrsta sporið er stigið. Það er alveg órannsakað, hvort það mundi gefast vel, að leggja á aðfluttar vörur sams konar gjald og lestargjaldið gamla. Eg skal ekkert um það segja til né frá, en eg álít ekki rétt af þinginu að byrja á því að órannsökuðu máli. Alt öðru máli væri að gegna, ef stjórnin athugaði málið og undirbyggi það eftir föngum, og legði það svo fyrir næsta þing. Því að mér dylst það ekki, að á næsta þingi verður stjórnin að gera eitthvað til þess, að auka tekjur landsjóðs, og þá getur vel verið að henni þyki þessi leið hentugust. — Þess vegna vil eg leggja það til, að málinu verði lokið hér með svo hljóðandi rökstuddri dag skrá:

»Með því að mál þetta hefir ekki getað fengið þann undirbúning hér í deildinni, sem telja verður nauðsynlegan, og deildin að öðru leyti telur sjálfsagt, að stjórnin undirbúi slík mál, þá tekur hún fyrir næsta mál á dagskrá«.