20.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

78. mál, fjármálanefnd

Steingrímur Jónsson:

Eg skal lýsa því yfir að eg vil ekki vera móti þessari tillögu. Það hefir sýnt sig á þingunum 1905 og 1907 að hér er um heppilega »praxis« að ræða.

En eg vildi aðeins vekja athygli á einu atriði, og það er, hvernig nú stendur á þingtíma. Vér getum búist við því um næstu helgi að fjárlögin komist hingað til Ed., og það er ekki útlit til þess að þingi verði slitið fyr en um lok aprílmánaðar. Af þessum ástæðum getur fjárlaganefndin í Ed. unnið um miklu lengri tíma en venjulega, og það því fremur, sem óhætt er að fullyrða, að fjárlögin verði ekki tekin til umræðu hér í deildinni fyr en forsetar vorir eru komnir aftur úr utanförinni, og hinn nýi ráðherra getur mætt hér á fundum. Mér datt í hug, hvort ekki væri hægt þá að skipa nefndina 7 mönnum og það því fremur, sem þá væri mögulegt að gefa þeim háttv. þm., sem hér er utanflokka, — eg á við háttv. 6. kgk. þm. —, kost á að eiga sæti í nefndinni.