05.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

79. mál, gagnfræðaskóli á Ísafirði

Lárus H. Bjarnason:

Áður en eg heyrði ræðu háttv. þm. Ísf. skildi eg ekki almennilega, hversvegna hann væri að flytja þetta frumv., en nú heyrði eg að það væri vegna áskorunar frá kjósendum hans í Ísafjarðarkaupstað. Og sannast þá hér sem oftar, að mikið er gjört fyrir kjósendur.

Háttv. þm. taldi til heilmikið af ástæðum fyrir því, að þessi skóli yrði settur á stofn. En eg verð að álíta, að engar þeirra styðjist við nægileg rök, og að sumar af þeim geti alls ekki komið til greina; t. d. sú ástæða, að Ísafjörður greiði svo og svo mikið til landsjóðs. Það er ekkert annað en hreppapólitík. Háttv. þm. sagði líka, að þessi landshluti væri settur hjá að öllum menningarfyrirtækjum. Það er líka hreppapólitík, og er auk þess heldur ekki rétt. því að þeir skólar, sem þm. gat um, t. d. Hvanneyrarskólinn, eins og raunar allir landskólarnir, eru eins gerðir fyrir Ísfirðinga og aðra. Þeir eru landskólar, þó að þeir séu eðlilega missóttir af landsmönnum.

Frá almennu sjónarmiði er engin þörf á gagnfræðaskóla á Ísafirði. Sem stendur eru 3 gagnfræðaskólar á landinu, einn í Reykjavík í sambandi við mentaskólann, annar á Akureyri og hinn þriðji í Hafnarfirði. Og eg hefi ekki heyrt annað en að þessir skólar fullnægi kröfum þjóðarinnar. En jafnvel þótt rúm væri of lítið í einhverjum af þessum þrem skólum, þá væri þó hægra að bæta húsrúmi við, heldur en að byggja nýjan skóla annarstaðar. Sama er að segja um kenslukrafta. Það er hægra að bæta við einum kennara við einhvern gamla skólann, heldur en að stofna mörg kennaraembætti við nýjan skóla. Og frá sérmennu sjónarmiði er heldur engin ástæða til að stofna sérstakan gagnfræðaskóla fyrir Vestfirði, eða þær 3 sýslur, Ísafjarðarsýslu, Strandasýslu og Barðastrandarsýslu, sem sérstaklega myndu nota skólann. Í þessum sýslum eru að vísu rúm 12000 manna. En þeim er svo í sveit komið, að Strandasýsla á eins hægt að sækja skóla á Akureyri einsog á Ísafirði, og Austur-Barðastrandarsýsla að minsta kosti jafn auðsótt til Reykjavíkur eins og til Ísafjarðar. Og er þá Ísafjarðarsýsla ein eftir, en henni ætti ekki að vera ofætlan að leita á annanhvorn hinna staðanna, þar sem allar samgöngur eru nú orðnar góðar og greiðar.

Þessi skólastofnun mundi líka hafa ýmsar óþægilegar afleiðingar í för með sér. Það yrði fyrst að byggja hús yfir skólann, og skal eg í því sambandi að eins minna háttv. þm. á kostnaðinn við skólabygginguna á Akureyri, sem nam um 70,000 kr. auk reksturskostnaðar, sem nemur árlega 11,900 kr. Í annan stað mundi Flensborgarskólinn þá verða lagður niður, því að hann yrði þá óþarfur, en eg sé ekki hvað mælir með þeim flutningi og þeim kostnaði, sem því fylgir. Og í þriðja lagi yrði að draga meira við þá 2 skóla, sem eftir yrðu, en nú er gjört, en af því leiddi aftur að allir skólarnir yrðu lakari. Þetta er alt ilt. Það ætti að keppa að því að skólarnir yrðu sem beztir og hafa þá heldur færri; fjárhagur landsins er ekki svo, að fé sé fyrir hendi til margra góðra skóla.

Þetta nýmæli kemur líka hálf illa heim við þá hugsun, sem alþingi virðist hafa tekið upp með fækkun búnaðarskólanna, að flytja þetta mál nú. Búnaðarskólunum var fækkað úr 4 í 2, einmitt til þess að geta gjört skólana sem bezt úr garði.

Og svo virðist flutningur þessa óþarfa, en mjög svo dýra máls ekki hvað síst undarlegur, þegar litið er til þess, að nú er í ráði að svifta landsjóð einhverjum bezta spóninum úr aski landsmanna.

Eg sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þessa tillögu lengur, en úr því að svo mikilsmegnandi maður sem háttv. þm. Ísf. á í hlut, þá er eg ekkert á móti því, að nefnd verði skipuð í málið, þó að eg hins vegar sé þess albúinn, að greiða atkvæði á móti tillögunni nú þegar.