25.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

80. mál, skólabækur

Sigurður Hjörleifsson:

Eg vildi leyfa mér að óska þess, að tillagan yrði borin upp í 2 lagi. því að eg er með fyrri hlutanum, en mótfallinn viðbótinni.

Eg fæ heldur ekki séð, að rétt sé, að láta þetta tvent fylgjast að, því að það er sitt hvað, að eiga við fræðslu barna og útgáfu kenslubóka handa hinum æðri almennu mentaskólum. Öll barnafræðsla heyrir og undir fræðslumálastjórann, og þarf hann ekki á þessari hjálp að halda, og álít eg því að það sé verið að grípa fram fyrir hendurnar á honum með tillögu þessari. Sé fræðslumálastjóri ekki svo fær í íslenzku máli, að honum sé felandi þetta, eftirlit með bókaútgáfunni, þá er hann heldur ekki hæfur til þess að gegna embættinu. Það er heldur ekki nóg, að bækur, sem börnum eru ætlaðar, séu á góðu máli; þær verða líka að vera á því máli, sem börnin skilja. Sjálfur hefi eg gert tilraun með eina bók, sem útgefin er sem barnabók, en eg uppgafst, því að eg gat ekki fengið barnið til þess að lesa hana, sakir þess að það skildi ekki málið á henni. Á barnabókum má málið ekki vera of »klassiskt«. Eg skal svo ekki segja meira, en að eins óska þess, að tillagan verði borin upp í tvennu lagi.